05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Halldór Stefánsson:

Sem flutningsmaður þessa máls finn jeg ástæðu til að lýsa ánægju minni yfir því, hve það yfir höfuð hefir fengið góðar undirtektir hjer í þessari hv. deild. Sjerstaklega vil jeg þá lýsa yfir því, að jeg er þakklátur þeim mönnum, sem mesta athygli hafa veitt málinu, sjerstaklega þeim hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og hv. 2. þm. Skagf. (JS), því að fyrir þeirra aðgerðir og athugun hefir málinu best þokað áfram. Jeg get ennfremur lýst ánægju minni yfir því, hve hæstv. atvrh. hefir tekið vinsamlega undir þetta mál.

Það kom hjer fram þegar við 2. umr., að það mátti skilja það, að menn þættust óviðbúnir að afgreiða þetta mál til fullnustu, enda kom það fram, að sumir vildu afgreiða málið þegar við 2. umr. á þann hátt, sem nú er fram kominn. Jeg verð þó að telja betur farið, að það varð ekki, hvernig sem nú fer, vegna þess að jeg tel, að málið hafi grætt á því að þokast þannig áfram, og að einstakar greinar frv. komu hjer til atkvæða við 2. umr. og menn með atkvæðagreiðslu sinni hjer hafa lýst nokkuð eindregnu fylgi sínu við höfuðatriði málsins og meginhugsun frv. En sú meginhugsun var annarsvegar að vinna að því, að fjölga sjálfstæðum býlum í sveitum þessa lands, og hinsvegar að hjálpa til að byggja upp hin bygðu býli í landinu, eftir þeim nánari reglum, sem eru í frv.

En jeg hefði nú fyrir mitt leyti þorað að fylgja þessu máli lengra, því að í mínum augum er það tiltölulega einfalt mál. Það eru eiginlega ekki neitt flókin atriði, sem hugsað er til að setja hjer löggjöf um, en það er hinsvegar miklu meira undir því komið, hver vilji er um þetta. En málið er ekki svo mjög vandasamt, því að þó að komið hafi fram allmargar athugasemdir við frv., sjerstaklega frá hv. 2. þm. Skagf., þá eru þær þó ekki þess eðlis, að ekki væri sumpart hægt að taka þær til greina við frekari meðferð málsins, og sumpart atriði, sem jeg tel, að frekar hefðu átt að standa í reglugerð.

En af því sem mjer var kunnugt um, og jeg geri ráð fyrir, hvaða afgreiðslu þetta mál muni fá, því að vitanlega var mjer kunnugt um þá tillögu, sem hv. meiri hl. landbn. hefir gert, þá var ekki ástæða til að taka þessar athugasemdir nánar til greina með breytingartillögum.

Þó að jeg fyrir mitt leyti vel hefði þorað og enda viljað fylgja því, að málið hefði fengið að ganga fram, þá get jeg þó hinsvegar skilið það, að menn sjeu dálítið hikandi og vilji komast hjá því að leysa þennan vanda af höndum sjer, að taka fullnaðarákvörðun um málið eins og nú stendur á. Það er náttúrlegt, af því að þetta er nokkurt nýmæli, og þá er skiljanlegt, að mönnum þyki þetta stuttur umhugsunarfrestur, og jeg get lýst yfir því, að jeg er ekki svo tiltakanlega óánægður með að málið fái þá afgreiðslu sem hjer er lagt til, þótt jeg hinsvegar hefði ekki talið þess þörf og teldi, að það hefði mátt ganga lengra.

Því hefir nú verið barið við, eins og líka rjett er, að það væri lítið eftir af þingtímanum og því ekki líklegt, að málið gangi fram til fulls, og því get jeg sætt mig við þessa afgreiðslu.

Jeg vænti, eins og hæstv. atvrh. hefir tekið í málið, að það sje vel komið með þessari afgreiðslu, og ber fylsta traust til hans um það, að hann vilji láta sýna málinu fylstu athygli.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. meiri hl. landbn. (JörB) sagði, þegar hann lagði fram þessa rökstuddu dagskrá, hefi jeg ekki annað að athuga en það, að mjer þótti það koma í ljós hjá þeim hv. þm. (JörB), sem jeg að minsta kosti ekki vissi fullljóst áður, að það hafi frá upphafi verið hugsun a. m. k. sumra nefndarmanna, að málið gengi ekki lengra. Það er satt; málið hefir legið lengi fyrir nefndinni, en það stafar af því, að nefndin hafði mörg mál til meðferðar, og tók þau fyrir að mestu leyti eftir röð, og jeg get játað það á mig, að jeg gerði ekkert verulegt til þess að fá málið fyr tekið fyrir, vegna þess að mjer þótti þetta eðlilegir starfshættir. Hitt vissi jeg ekki fyr, en jeg veit það þá nú, að sumir hv. meðnefndarmenn mínir hefðu unnið að afgr. málsins með þessari hugsun frá upphafi.