05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Hákon Kristófersson:

* Vegna þess að jeg var ekki viðstaddur, þá er málið var til 2. umr., og vegna þess að jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, þykir mjer hlýða að fara um það nokkurum orðum.

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg skrifaði ekki undir með fyrirvara vegna þess, að jeg áliti ekki, að hjer væri mikilsvert mál á ferðinni, en jeg treysti mjer ekki til þess að gjalda frv. jákvæði út úr deildinni, eins og það er. Það hefir ekki verið hægt að benda á neinar líkur til þess, að hag ríkissjóðs sje svo háttað, að bæta megi á hann 200 þús. kr. aukagjaldi árlega, enda þótt einhverjar tekjur kæmi í móti. Og það var þetta stóra fjárhagsatriði, sem gerði mig ragan við að afgreiða málið. Að hinu vildi jeg styðja, að það kæmi til umræðu og athugunar hjá væntanlegri milliþinganefnd, sem á að athuga landbúnaðarlöggjöfina. Sú nefnd hefir vitanlega mikið að vinna, og ef litið er til þess gróða, sem orðið hefir af starfi annara milliþinganefnda, þá býst jeg nú við því, að till. hennar verði að meira eða minna leyti svo, að þær verði ekki haldgóðar, og þess vegna skal jeg síst fara að lofa hana áður en till. hennar koma, enda þótt jeg vilji að óreyndu sýna henni það traust, að fela henni þetta mál.

Það segir sig vitanlega sjálft, að þegar gert er ráð fyrir slíkum fjárframlögum árlega og hjer er gert, þarf að gera ítarlegar tryggingarráðstafanir til þess að ekki sje farið illa með það fje. Það verður að vera svo um hnútana búið, að þær byggingar, sem reistar verða, sje ekki neitt handahófstildur, sem hverfi

úr sögunni eftir nokkur ár, svo að ekkert sjáist eftir.

Þó að jeg vilji lúka lofsorði á hv. flm. fyrir það, að honum gengur gott eitt til og vill, að eitthvað sje gert til viðreisnar landbúnaðinum, þá verð jeg þó hinsvegar að segja það, að það er ekkert vandaverk að ákveða, að verja skuli úr ríkissjóði hundruðum þúsunda. Hitt er meiri vandinn að sjá um, að það fje fáist í ríkissjóð. En þótt bent sje á, að eitthvað megi spara, sem ekki er jafnnauðsynlegt, þá dreg jeg nú samt í efa, að horfið verði að því ráði.

Jeg hefi altaf álitið það viðsjárvert, að skifta ríkissjóði í aðra smærri sjóði, og jeg er á móti því enn. Þó getur verið til það málefni, sem rjettlætir það að einhverju leyti. En hjer er hvorki um meira nje minna að ræða en 200 þús. kr. á ári, og eftir tíu ár eru þau útgjöld orðin á þriðju miljón króna. Þetta eru svo stórkostleg útgjöld, að jeg álít, að það eigi að vera fyrsta verk væntanlegrar milliþinganefndar að búa svo um hnútana, að þetta verði hyggindi, sem í hag koma.

Sem sagt, þá mun jeg greiða dagskrártill. atkvæði, og jeg vil taka fram, að það sem jeg hefi nú sagt, hefi jeg ekki sagt af óvilja til málsins, heldur eingöngu af því, að jeg álít ríkissjóð ekki færan um að taka á sig þessa byrði, og svo hitt, sem leiðir af sjálfu sjer, að frá svona stórmáli þarf að vera svo vandlega gengið að öllu leyti, að engir hnútar rakni.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.