05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jón Sigurðsson:

Við 2. umr. málsins skildist mjer á hv. flm., að málið mundi ekki fara lengra en til 3. umr. Jeg hefi því ekki komið fram með þær brtt. við frv., sem jeg lýsti við 2. umr. að væru nauðsynlegar og hv. flm. viðurkendi, að væru rjettar. Ef þessar breytingar hefðu komist fram, níundi jeg fyrir mitt leyti hafa verið með því, að málinu yrði vísað til hv. Ed. En vegna þess að engar þær breytingar, er allir telja nauðsynlegar til bóta, liggja fyrir, og þar sem nefndinni hefir ekki unnist tími til þess að bera frv. þetta saman við hliðstæða löggjöf annara þjóða, og þar sem loks, að nú er samþykt að skipa milliþinganefnd til að athuga landbúnaðarlöggjöfina, og þá um leið þessa hlið hennar, þá felst jeg á till. nefndarinnar, og með því fororði, sem þar er.

Mjer er það líka ljóst, að svona máli á ekki að hraða mjög. Meðferð þeirra mála, sem manni eru kær, á að vanda sem allra best. Og hjer stendur einmitt þannig á, að það er mikil hætta á því, að ef einhver mistök verða í byrjun, þá geti þar af leitt vantrú og tortrygni, sem gæti orðið mjög hættuleg fyrir málið um lengri tíma. Það er ávalt best að vanda vel, það sem lengi á að standa. Jeg veit, að háttv. flm. er þetta ljóst, og mjer skildist á niðurlagi ræðu hans, að hann gæti fallist á það, að málið yrði afgreitt á þann hátt, sem nefndin leggur til.