05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg vil taka það fram, út af því, sem hv. frsm. (JörB) sagði um það, að jeg hefði misskilið sig, að hafi jeg skilið hann öðruvísi en hann ætlaðist til, þá kæri jeg mig ekki um að halda fram, að hann hafi sagt það, sem hann vill ekki sjálfur kannast við.

Þótt jeg sjái ekki ástæðu til þess, eins og sakir standa, að ræða málið alment, þar sem sýnt er, hverja afgreiðslu það fær, þá vil jeg þó minnast ofurlítið á þennan fyrirvara, sem hv. þm. Barð. (HK) gerði grein fyrir. Jeg kannast við þessar ástæður hans, því að þær komu fram í nefndinni. Honum þykir það mest um vert, hvað þetta er stórt fjárhagsmál. En fyrir mjer er það aðalatriðið, hvað mikið vinst á móti. Það er að vísu allmikil upphæð, sem farið er fram á, en þó ekki nema 2% af tekjum ríkissjóðs, eins og þær hafa verið nú að undanförnu.

Hv. þm. (HK) sagði, að það þyrfti að gera tillögur um það, hvernig fjárins yrði aflað. Þetta mál hefir verið til meðferðar í þinginu áður, og þá fylgt tillaga um það, hvernig fjárins skyldi aflað, og mjer skilst, að einmitt það hafi verið ástæðan til þess, að málinu var þá ekki jafn vel tekið og nú. Jeg hugsa mjer, að teknanna verði aflað á sama hátt og til annara þarfa ríkissjóðs, eftir því sem þarfirnar krefja. Hv. þm. (HK) hafði það við frv. að athuga, að það væri ekki sett sem höfuðskilyrði, eins og vera bæri, að þeir, sem fengi fje til nýbýla, reistu varanlegar byggingar. Þetta skilyrði er einmitt sett með almennum, en berum orðum í frv., en ætlast til, að nánari ákvæði um það yrðu sett með reglugerð.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) kvaðst hafa skilið mig svo, við 2. umr., að jeg byggist við þeirri afgreiðslu, sem málinu er nú ætluð. Það er satt, og mjer gat ekki komið það á óvart, eftir að allir þeir, sem töluðu við 2. umr., höfðu látið það í ljósi, að afgreiðslan ætti að vera þessi. Og eins og jeg tók fram áðan, þá sætti jeg mig allvel við það, að málið fái þá afgreiðslu, sem nefndin leggur til, enda mun ekki þýða að standa í móti straumnum. Jeg get skilið það, að mönnum þyki málið ekki nógu vandlega athugað, en það hefir þó sjálfsagt mátt athuga það talsvert betur, ef það hefði fengið að ganga áfram. Það má og rjett vera, að frv. sje ekki fullnægilega borið saman við samskonar lagaákvæði annara þjóða. Við 2. umr. var það mest borið saman við „Husmands“-býli Dana, en löggjöf um þau er bygð á öðrum grundvelli en hjer er gert. Hjer á að koma upp sjálfstæðum býlum, en húsmennirnir dönsku hafa eigin búskap í hjáverkum. Í Noregi mun það vera eitthvað líkt. En stefnan í þessu máli hjá öðrum þjóðum er nú sú, að nýbýlabændur fái sjálfstæðari framfærslu af býlunum sjálfum en þeir hafa haft, og það sýnist mjer einmitt vottur um, að þetta frv. fari í rjetta átt. Það er ekki laust við, að jeg einmitt óttist nokkuð, að menn vilji of mjög binda sig við samanburð við löggjöf annara þjóða. Í þessu tel jeg að geti falist nokkur hætta, því að aðrar ástæður eru hjer en í öðrum löndum. Við eigum því fyrst og fremst að hugsa um að sníða löggjöf okkar við okkar hæfi, byggja á okkar eigin hugsun og staðháttum, og reyna að vera sem frumlegastir, þegar við tökum ákvarðanir um aðalatriðin. En þar með segi jeg ekki, að við megum ekki hafa hliðsjón af því, hvernig er hjá öðrum þjóðum.

Eins og jeg hefi sagt, þá sætti jeg mig eftir atvikum allvel við þá afgreiðslu málsins, sem hjer er lagt til, og mun því sitja hjá atkvgr., hvorki greiða atkv. með nje móti till.