05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins með fáum orðum að gera grein fyrir atkv. mínu út af þessari rökst. dagskrá. Þetta er mjög óvenjuleg atkvgr., sem hjer ber að höndum. Venjan er sú, að þegar fram kemur till. um að vísa einhverju máli til stjórnarinnar eða vísa því frá með rökst. dagskrá, þá er það til þess að fella málið, en er aðeins mildara form. Ef um það væri að ræða, þá er jeg viss um, að hv. flm. (HStef) og margir fleiri mundu verða á móti því að afgreiða málið með dagskrá. Þetta er svo óvenjuleg afgreiðsla, að í dagskránni eru einmitt meðmæli með frv. Og þegar svo stendur á, að skipa á nefnd til þess að íhuga landbúnaðarmálin, þá ber að skoða þessa afgreiðslu vingjarnlega. Jeg hefði nú samt álitið það enn myndarlegri afgreiðslu, ef málið hefði verið afgreitt með því að samþ. það. Það hefði líka verið hinn besti eftirrekstur á eftir málinu af deildarinnar hálfu. Jeg hefði því heldur kosið, að landbn. hefði lagt til, að Nd. samþ. frv. fyrir sitt leyti. En þar sem nefndin hefir nú komið með þessa till., og lætur fylgja henni meðmæli með málinu, þá kann jeg ekki við að vera á móti henni. Jeg mun því, eins og hv. flm. (HStef), sitja hjá við atkvgr. um dagskrártill.