11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Flm. (Ólafur Thors):

Út af ræðu hv. 2. þm. N.-M. skal jeg geta þess, að mjer finst sjálfsagt, að bendingar hans verði teknar til greina. Jeg hjelt, að notkun bensíns til smábátaútgerðar væri lítil, en ef annað reyndist sannara, er sjálfsagt að taka tillit til þess og koma því bensíni undan tolli, sem til hennar fer.

Þá skal jeg víkja lítið eitt að ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Honum kom hálfókunnuglega fyrir sjónir, að hjer skyldi liggja fyrir áskorun frá mörgum bifreiðaeigendum, og virtist hann vera hálfmæddur yfir því. En jeg get nú sagt honum það, að jeg hefi aldrei lagt mikið upp úr þessari áskorun, eins og jeg legg heldur ekkert upp úr því, hvort nokkuð svipað þessu hefir verið samþykt eða felt í Bifreiðarstjórafjelagi Íslands. Jeg hefi flutt þetta frv. vegna þess, að jeg tel það rjettlátt, og að því færði jeg rök í fyrri ræðu minni. Jeg vil ekki vera að þreyta hv. þdm. með því að endurtaka þau hjer aftur. Jeg veit, að allir hv. þm. hafa skilið þau. Háttv. 4. þm. Reykv. flutti mjer nýja fregn um innflutning bensíns á árinu 1925. Jeg leitaði til hagstofustjórans um þær upplýsingar, en hann gat ekki gefið mjer þær. Jeg er hv. þm. þakklátur fyrir upplýsingarnar, en þær hefðu ráðið öðru hjá mjer en honum, ef jeg hefði vitað þær fyrri. Jeg hefði þá lagt til, að skatturinn væri ákveðinn 2/5 lægri. En jeg vænti þess, að hv. fjhn. noti þessar upplýsingar og lækki skattinn í samræmi við þær. Hv. þm. gat þess, að með þessu kæmi fram hjá mjer löngun til þess að hlífa þeim, sem eiga „luxus“-bíla. Þetta er með öllu rangt. Þegar jeg var beðinn að flytja þetta frv., þá sá jeg strax, að núgildandi lög um þetta efni voru ranglát, og vildi jeg gera mitt til þess að bæta úr því. Ef þinginu sýndist svo, að leggja sjerstakan skatt á „luxus“-bíla, þá skal jeg ekki vera á móti því. En sá skattur á ekki sjerstaklega að renna til viðhalds vega. Þar er um alt annað mál og aðra stefnu að ræða. Annars virtist mjer mesta armæða hv. 4. þm. Reykv. vera sú, að jeg væri með þessu frv. að vinna á móti kjósendum mínum. Það á ekki úr að aka með umhyggjuna fyrir mjer gagnvart kjósendum mínum. En jeg get skotið því til hans, að þegar hann er búinn að hjálpa mjer um upplýsingar, svo jeg get lagt til, að skatturinn verði lækkaður, þá kvíði jeg því ekki, að mínir og hans kjósendur geti ekki risið undir honum. Þó mínum kjósendum sje þörf á því að fá vörur fluttar heim til sín, þá er þeim líka þörf á því að ferðast á milli sjálfum, og er því ekki meiri ástæða til þess, þeirra vegna, að ljetta undir vöruflutningum en fólksflutningum. En það er alveg greinilegt, að sje vöruflutningum íþyngt með frv., þá er alveg að sama skapi ljett á fólksflutningum.

Þegar jeg kom fram með þetta frv., var það vegna þess, eins og jeg hefi áður sagt, að jeg vildi bæta úr órjetti. Það er ástæðulaust með öllu að bregða mjer um það, að jeg vilji halda hlífiskildi yfir eigendum „luxus“-bíla. Jeg er reiðubúinn til þess að vera því hlyntur að leggja sjerstakan skatt á „luxus“- bíla og annan óþarfa, sem notaður er af mjer og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) og öðrum burgeisum borgarinnar.