11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2613)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Hjeðinn Valdimarsson:

Það gleður mig, að hv. 2. þm. G.-K. tekur fræðslu af mjer um þessi efni og vill breyta frv. samkvæmt því, eða a. m. k. taka athugasemdir mínar til athugunar. — Nú hafa bæst við fleiri í hópinn, sem þurftu að fræða hv. þm. (ÓTh). Hv. 2. þm. N.-M. benti t. d. hv. þm. á það, að bensín er notað til annars en bifreiða, og hæstv. forsrh. sýndi fram á, að athuga þyrfti, hvort bensíntollurinn væri greiddur af vörunni án umbúða eða með umbúðum. Það er því nokkuð margt, sem athuga þarf í þessu sambandi, og vildi jeg leyfa mjer að mælast til þess við hv. 2. þm. G.-K., að hann tæki nú frv. aftur, — til frekari athugunar og leiðrjettingar.

Jeg vil í sambandi við þetta mál beina því til hæstv. forsrh. (JÞ), að jeg hefi heyrt, að framkvæmd laganna um bifreiðaskatt sje allmisjöfn á ýmsum stöðum á landinu. Hjer í bænum sje skattur borgaður af bifreiðunum fyrir alt árið, hvort sem þær eru notaðar eða ekki — svo sem rjett virðist vera eftir lögunum — en annarsstaðar, t. d. í Gullbringu- og Kjósarsýslu, aðeins fyrir þann tíma, sem bifreiðarnar eru notaðar. Vil jeg spyrja hæstv. ráðh. (JÞ), hvort þetta sje gert með hans samþykki.