06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Sigurjón Jónsson:

Jeg vildi aðeins nota tækifærið til þess, um leið og mál þetta verður afgreitt til hæstv. stjórnar, að vekja athygli hennar á því, að samkvæmt gildandi lögum er tekið gjald af bifreiðum, sem aldrei nota vegi, er kostaðir eru af ríkinu. Svo er það t. d. á Ísafirði og nágrenni. Þar er ekki um neina þjóðvegi að ræða, en þó þurfa bifreiðir þar að greiða þennan skatt, án þess þó að njóta nokkurra opinberra vega í staðinn. Er nauðsynlegt, að hæstv. stjórn athugi þetta, ef hún ætlar að leggja frv. um þetta efni fyrir næsta þing, sem jeg tel sjálfsagt að gert verði. Jeg hefi áður vakið athygli á þessu misrjetti, og vona jeg, að hæstv. stjórn taki þetta til athugunar.