06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Frsm. (Björn Líndal):

Hv. 1. þm. Reykv. taldi þá leið, er jeg talaði um, mundu koma þungt niður á flutningabifreiðum. Líklega hefir það stafað af því, að hann hefir ekki skilið til fulls við hvað jeg átti. Sumar nágrannaþjóðir okkar hafa t. d. valið þá leið, að hafa skattinn tvennskonar, og jafnvel þrennskonar, leggja hann meðal annars á eftir þunga bifreiðanna og hafa hann hlutfallslega því hærri sem bifreiðarnar sjálfar eru þyngri. Í tillögum milliþinganefndar þeirrar, sem skipuð var í Danmörku 1925 til að gera tillögur um þetta mál, er t. d. lagt til, að skatturinn verði 8 kr. á hver 100 kg í hinum ljettustu bifreiðum, en 20 kr. á hver 100 kg. í bifreiðum, sem þyngstar eru. Hjer er opin leið til að undanþiggja flutningabifreiðar ósanngjörnum skatti: hafa þær undanþegnar þungaskatti og láta þær borga einungis hringaskatt og lítilfjörlegan bensínskatt, svo sem í Danmörku. Þá held jeg, að ómögulegt verði að segja, að flutningabifreiðum sje íþyngt. Annars skal jeg játa, að jeg er ekki nógu kunnugur þessum málum til að færa full rök fram um hvert einstakt atriði, en treysti hæstv. stjórn til að rannsaka málið og undirbúa það vel fyrir næsta þing. Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gat þess, að rangt væri að taka skatt til viðhalds á vegum ríkissjóðs af þeim bifreiðum, sem aldrei koma á þá vegi. Jeg er hræddur um, að erfitt reynist að greina þar á milli, og það muni óvíða eiga sjer stað, að bifreiðar komist ekki á þjóðvegi, nema e. t. v. í hans kjördæmi. Danir hafa í þessu efni farið þá leið, að margskifta skattinum. Hann skiftist t. d. eftir sjerstöku hlutfalli milli Kaupmannahafnarbæjarfjelags og sveitanna í kring, o. s. frv. Þetta atriði þarf hæstv. landsstjórn einnig að taka til athugunar, og mætti þá sjálfsagt bæta úr agnúanum um Ísafjörð. — Hv. 1. þm. Reykv. virtist vilja finna að því, að nú væri verið að hopa frá þeirri stefnu, sem ríkt hafi 1921, að láta bifreiðaskattinn vera að nokkru leyti óþarfaskatt. Jeg hefi kynt mjer nokkuð umræður um þetta mál, bæði 1919 og 1921, og finst mjer það koma mjög lítið fram, að þetta eigi að vera óþarfaskattur. Það er að vísu nefnt af einstöku þm., en í því er engin festa. Enda er það enginn hægðarleikur að greina „luxus“-bíla frá öðrum bifreiðum, og í danska nál., sem jeg hefi áður vitnað í, sje jeg, að Danir hafa ekki lagt inn á þá braut, hafa ekki treyst sjer til þess. Vitanlega getur þó hæstv. landsstjórn einnig rannsakað þetta atriði, og gert till. um það, ef henni sýnist það fært.