06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Ólafur Thors:

Jeg verð að játa, að jeg hefi misskilið nokkuð fyrirvara sumra hv. nefndarmanna, ef þeir eru yfirleitt á móti bifreiðaskatti, og sjerstaklega á móti þeim, sem mælt er með í nál., sem þeir hafa skrifað undir með fyrirvara. Jeg held, að slíkur fyrirvari sje ekki venjulegur. — Um málið sjálft virðist mjer hv. frsm. (BL) hafa fært fram nægileg rök, og hefi jeg litlu þar við að bæta. — Út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. vil jeg geta þess, að hann álítur, að skattur af fólksbifreiðum verði hinn sami eftir þessu frv. og eftir gildandi lögum, en skattur af vörubifreiðum segir hann að muni margfaldast. Sje þetta rjett, þá stafar það eingöngu af því, að innflutningsgjaldið af bensíni er ákveðið of hátt í frv., og er þá ekki annað, sem þarf að gera, en að lækka það. Tilgangur frv. er ekki að auka bifreiðaskattinn, heldur að ná inn nokkurnveginn sömu upphæð á annan hátt. Það sem einn aðilinn tapar, verður öðrum til gróða. — Út af ummælum hv. 1. þm. Árn. vil jeg taka undir það, sem hv. frsm. (BL) sagði, að vel má koma skattinum þannig fyrir, að mikið verði ljett undir með flutningabifreiðum. — Sumir hv. þdm. hafa verið að tala um að hafa þennan skatt jafnframt „luxus“-skatt. En mjer er ekki kunnugt um neina ,,luxus“-bifreið hjer á landi, og jeg held, að þær sjeu áreiðanlega fáar. Því að það verður eigi kölluð „luxus“-bifreið, þótt eigandi noti hana stöku sinnum sjálfum sjer til gamans, ef hann þarf að eiga hana vegna atvinnurekstrar síns. Jafnframt neita jeg því, að fólksbifreiðar sjeu mest til skemtunar hjer á landi. Þær eru tæki til fólksflutninga, sem altaf eru að ryðja sjer meira til rúms, alveg eins og vöruflutningabifreiðar eru tæki til vöruflutninga. Þeir, sem vilja skattleggja fólksbifreiðar meira, vilja það þá fyrir þá sök, að þeir álíta flutninga á vörum nauðsynlegri en flutninga á fólki. Get jeg fallist á, að um það megi deila. — Að öðru leyti mun jeg ekki tefja tímann með frekari umræðum um þetta mál, enda þótt mjer virðist, að sumir hv. ræðumenn hafi ekki skilið það til hlítar. Vona jeg, að það fái þá afgreiðslu, sem hv. fjhn. leggur til.