24.02.1927
Efri deild: 13. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

16. mál, ríkisborgararéttur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson); Jeg hjelt, að alt, sem snerti þetta mál, væri tekið fram í athugasemdunum fyrir frumvarpinu.

Jeg tel engan vafa á því, að kona þessi hafi átt íslenskan ríkisborgararjett frá því hún fæddist og þar til hún giftist hinum svissneska manni og öðlaðist svissneskan ríkisborgararjett. Þegar svo því hjónabandi sleit, hjelt hún áfram að vera svissneskur ríkisborgari, en hefir nú óskað að fá aftur íslenskan ríkisborgararjett, því að hún telur nú engin þau bönd tengja sig við Sviss, að hún óski að vera þar áfram ríkisborgari.

Hvort yfirlýsingar þurfi um það, að hún hafi afsalað sjer ríkisborgararjettinum í Sviss, veit jeg ekki. En það mun verða athugað áður en ríkisborgararjettur verður veittur, og slík yfirlýsing fengin, ef hennar er þörf.

Annars er ekki við því að búast, að neinn afsali sjer ríkisborgararjetti, áður en hann veit, hvort hann fær hann annarsstaðar, því að allir verða vitanlega að vera einhversstaðar ríkisborgarar.