11.03.1927
Efri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

86. mál, nýbýli

Jónas Jónsson:

Jeg bjóst við því eftir gömlum vana, að hæstv. forsrh. (JÞ) mundi taka til máls. Það eru ekki nema tvö ár síðan þessu máli var fyrst hreyft hjer, og þá brá hæstv. forsrh. svo, eins og ætti að banna drykkjumönnum þingsetu eða setja drukna embættismenn í steininn. Hæstv. forsrh. komst í ilt skap og hjet á lið sitt að koma með kutann og drepa þetta voða mál, að ætla sjer að fara að rækta landið! Jeg var því að bíða núna, til þess að vita, hvort hið sama ljós mundi ekki skína eins og áður. En það hefir ekki orðið, og sýnir það, hvaða breyting er orðin á viðhorfi þeirra manna til landbúnaðarins, sem hafa verið honum andvígir. Nú getur sá maður, sem kallaður er formaður stjórnarflokksins, setið hjer í deildinni án þess að nota strax það tækifæri, sem honum gefst til að standa upp og þruma gegn landbúnaðinum.

Áður en jeg vík að frv., vil jeg nota tækifærið til þess að benda á, hver straumhvörf hafa orðið í þessu mikla ræktunarmáli. Fyrir tveimur árum kom í stjórnarblöðunum hver greinin á fætur annari um þá goðgá, að landssjóður styrkti ræktun landsins, og hvaða glæpur það væri við landbúnaðinn. Bændur væru gerðir að niðursetningum, og það væri verið að drepa í þeim allan manndóm. En nú í vetur er skilningurinn á þessum málum talsvert að glæðast. Frá allmörgum þingmálafundum hafa komið áskoranir um að taka þau til meðferðar, meira að segja frá Borgarnesi, þar sem stjórnarflokkurinn átti þó í það sinn fleiri menn viðstadda en hinir flokkarnir. Það virðist sem hin upprunalega skoðun hæstv. forsrh. sje farin að upplitast, þannig, að jafnvel fylgismenn hæstv. stjórnar treysta sjer ekki til þess að styðja hana lengur.

Það er auðsjeð, að þó að stjórnarflokkurinn hafi nú á tveimur þingum viljað kæfa landnámsmálið, hefir það verið með af þekkingarleysi. Hann hefir t. d. ekki haft neina hugmynd um, hvernig ástatt er erlendis. Í Danmörku hafa t. d. síðan 1850 verið reist 1500–2000 býli á ári. Ef Íhaldsmenn, sem eru meira og minna hrifnir af ýmsum ágöllum danskrar menningar, hefðu vitað um þetta, hefðu þeir beygt sig fyrir því, ekki af því, að hjer er um merkilegt framfaramál að ræða, heldur einungis af því, að það er danskt. En til þess að snúa þeim, þurfti tveggja ára stöðuga árvekni þeirra manna, sem hafa verið að berjast fyrir heill landbúnaðarins. En, sem sagt, þetta mál er nú komið á það gleðilega stig, að þeir, sem hafa haft áhuga fyrir því, eru nú búnir að plægja jarðveginn nógu lengi fyrir þá, sem ekki hafa þekkingu eða áhuga, svo að þeir eru farnir að bogna undan þekkingunni og áhuganum, og þó að fáfræðin og þekkingarleysið á þessum tíma gleðjist yfir því, að geta felt góð mál frá umr., þá er það í raun og veru þýðingarlaust fyrir endalok slíkra mála, því að þau koma aftur, og þegar góð mál falla, þá þarf enginn að hyggja, að þau sjeu úr sögunni fyrir það. En jeg get glatt hv. flm. þessa máls (JBald) með því, að þó að jeg hafi ekki trú á því formi, sem hann hefir á þessu máli, þá er það ekki svo mikilvægt atriði frá mínu sjónarmiði; aðalatriðið er það, að jeg skil flutning þessa frv. svo, þar sem hann er formaður eins af þremur mannflestu stjórnmálaflokkum landsins, að áhugi og samúð sje að vakna hjá hans flokki um fjölgun býla, sem kostuð sjeu af ríkissjóði að miklu leyti, og vona jeg, að hv. þm. (JBald) og hans flokkur fylgi málinu eftirleiðis eins fyrir því, þó að í framtíðinni yrði ekki haft alveg það form á málinu, sem hv. flm. hefir notað, ef aðrar leiðir reyndust heppilegri að sama takmarki. Jeg get líka lýst ánægju minni yfir öðru atviki af sama tæi. Jeg heyrði einn af leiðtogum sósíalista halda ræðu í Hafnarfirði, þar sem hann kom inn á þetta mál, og sagðist óska þess, að það yrði fjölgað býlum með landssjóðsstyrk í sveitum, til þess að stöðva fólksstrauminn úr sveitunum, og sagði, að það væri ólán kaupstaðarbúa, ef fólkinu liði svo illa í sveitunum, að það neyddist til að flytja þaðan. Því að þá þrengdi að í bæjunum, og aðstreymið væri bæði til ills fyrir þá, sem fyrir væru, og þá, sem að kæmu. Óskaði ræðumaður eftir því, frekast af öllu, fyrir íbúa Hafnarfjarðar, að aðstreymið úr sveitunum hætti, en þó ekki fyrir neina óeðlilega hindrun, heldur fyrir það, að fólki í sveitunum liði betur, svo að það þyrfti ekki að taka þátt í þessum óeðlilega þjóðflutningi.

Nú geri jeg ráð fyrir, að það fari að byrja kapphlaup milli þessara þriggja mannflestu stjórnmálaflokka þingsins um þetta mál. Dreg jeg það fyrst af ræðu hv. flm. (JBald), að hans flokkur ætli nú að fara að skifta sjer af þessu máli, með þeim skilningi á því, að býlum verði fjölgað í stórum stíl með opinberum stuðningi. Og ýms rök benda á það, að Íhaldsflokkurinn muni ekki treysta sjer lengur til að sýna þvera mótstöðu í málinu, en muni fylgja því, að vísu með hangandi hendi, og reyna að hafa þau áhrif, með ófullkomnu formi, að eins lítið gagn yrði að framkvæmdum eins og hægt væri, með því að gera mögulegt, að jarðirnar lendi í braski, t. d. með því, að fjárglæframönnum sje kleift að hafa gróða af þeim jörðum, sem ríkið hefir hjálpað til að byggja upp. Það er vitaskuld rangt að gera ráð fyrir, að slíkt muni lagast með tímanum; það þýðir ekki að fara hjer að leika upp aftur sama leikinn og með þjóðjarðirnar, sem fyrst var lágt verð á, en svo eftir önnur eða þriðju eigendaskifti var það orðið svo hátt, að engum manni var hægt að búa á þeim. Hv. flm. (JBald) hefir reynt að tryggja þessa hlið málsins, með því að ákveða, að ríkið skyldi eiga jarðirnar, sem þannig væru bygðar upp. Jeg hygg, að það mætti líka koma því öðruvísi fyrir, í sambandi við einkaeign, en jeg skal ekki fara út í það við þessa umr. Það, sem mjer þykir helst að þessu frv. hjá hv. 5. landsk. er það, að það virðist vera of mikið það fjármagn, sem hv. flm. hugsar sjer að landið leggi í hverja einstaka jörð. Í Danmörku er það að vísu reynsla, að húsmannsbýli, sem komið er upp með styrk sveitar og ríkis, kostar frá 20–25000 danskar kr. Jeg þekki ennfremur til um eitt býli hjer inni í Sogamýri, sem mun kosta fullar 30 þús. krónur. Þetta hugsa jeg að geti borið sig rjett hjá Reykjavík og í góðum árum. En jeg vil þó vona, að það sje hægt að koma upp sjálfstæðu heimili fyrir svo sem 5000 krónur, t. d. með láni beint úr ríkissjóði, sem væri með litlum eða engum vöxtum um stundar sakir, þar sem skilyrði eru mjög heppileg. Annars fyrir 10 þús. krónur, en að reynt verði að komast hjá því, að býlin alment kosti 20 þús. krónur eða þar yfir, vegna þess, að hvernig sem að er farið, hlýtur það að verða svo, að fjármagnið verði takmarkað og málið sækist seint, ef svo miklu er til kostað, og þess vegna er jeg ekki samþykkur hv. flm. um það, að jeg hygg, að það megi víða treysta meira á það, sem kallað er frumkvæði einstaklingsins, og að víða megi finna menn, sem eiga nokkur þús. kr. og mundu leggja fram fje móti styrk eða stuðningi frá því opinbera.

Þá hefir hv. flm. lagt til, sem vel getur verið vit í, að gera eina stóra tilraun hjer á Suðurlandi, nú til að byrja með. En þó að frv. væri samþykt alveg eins og það liggur fyrir, mundi það þó ekki nægja, því að nú er svo ástatt á Skeiðunum, og verður líklega eins í Flóanum eftir veturinn í vetur, að það er ekki hægt að nota grasið, sem þar er komið, nema með því einu móti að býlum fjölgi, og vonlítið að þeim fjölgi nema með styrk úr ríkissjóði, og þess vegna leysir þetta frv. ekki þann vanda, hvernig eigi að færa sjer í nyt áveiturnar á Flóann og Skeiðin. En hitt er rjett hjá hv. flm. (JBald), að þær sveitir, sem nefndar eru í frv., bæði Ölfusið og Holtin, og þó sjerstaklega Holtin, verða sjálfsagt í framtíðinni mikil nýbyggjalönd, einmitt þegar búið er að koma á sterku og heilbrigðu skipulagi til þess að býlum geti fjölgað. Jeg játa, að jeg er um mjög mörg fyrirkomulagsatriði þessa frv. ekki samþykkur hv. flm., en jeg er honum þakklátur fyrir, að hann skilur aðalhugmyndina og nauðsyn þessa máls.