11.03.1927
Efri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

86. mál, nýbýli

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. 1. landsk. hefir ekki gert neinar þær athugasemdir, sem gefi mjer ástæðu til að mótmæla hans ræðu, og hefir yfirleitt tekið vel þessum tillögum mínum, þótt hv. þm. af ýmsum ástæðum sje mjer ekki sammála um alt. En jeg held nú, ef hv. þm. lítur á þetta mál, þá hljóti hann að sjá, að þetta mál þarf mjög bráðrar aðgerðar; það er ekki nægilegt að skjóta því eitthvað út í framtíðina, þangað til að eftir svo og svo mörg ár er búið að aura saman svo marga skildinga, að hægt yrði að reisa nokkur býli, og þó á ódýran hátt. Málið er nú komið í þann hnút, að svo mikill fjöldi fólks er kominn að sjávarsíðunni, að það þarf að fara að beina straumnum til baka aftur.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. var alvara, þegar hann var að tala um sinnaskifti Alþýðuflokksins í þessu máli, því að jeg held, að það hafi aldrei nokkurn tíma heyrst frá þeim flokki, að hann óskaði eftir því, að straumurinn hjeldi áfram úr sveitunum. Jeg held, að hann hafi öðrum fremur talið sjálfsagt, að reynt væri að stöðva þann straum, og það er vitanlega ekki nema eitt, sem hægt er að gera til þess, það er að gera fólkinu lífvænlegt í sveitunum. Svo eru það aðferðirnar, sem greinir á um, og það er það, sem þessar tillögur mínar hníga að, sem fram hefir komið í þessu máli. En af því að málið er svo erfitt, verður ekki hjá því komist, að ríkissjóður leggi nokkuð fram. Það er ekki við því að búast, að einstakir menn, kannske efnalitlir eða efnalausir, fari að ráðast í slíkt fyrirtæki að rækta einhvern lítinn blett, með 8% vöxtum, og byggja þannig upp í sveitunum. Hið opinbera verður að sýna það, hvernig á að fara að í þessu máli, veita mönnum stuðning og leggja höfuðlínurnar í þessari jarðræktarpólitík, eins og annarsstaðar hefir verið gert.

Það er rjett hjá hv. 1. landsk., að jeg hefi ekki leyst spurninguna viðvíkjandi Skeiðunum og Flóanum. Það er líka rjett, að þar verður yfrið gras og óhjákvæmilegt, að reynt verði að nota það, ef ekki á að sökkva niður því fje í ekki neitt, sem lagt hefir verið í þær áveitur, því að það er ekkert fengið með því að hafa gert dýrar áveitur á þessi svæði, ef svo hefst ekkert upp úr því. En jeg hafði annars hugsað mjer, að kauptúnin, Stokkseyri og Eyrarbakki, sem liggja að Flóaáveitunni, gætu notað mikið gras af henni; þar er þurrabúðarfólk, sem gæti fengið landið annaðhvort ókeypis, eða þá fyrir mjög lítið verð. Það þarf ekki sjerstaklega að byggja vegna Flóaáveitunnar, því að það er hægt að ná til hennar án þess, og það eru mjög ódýr hús á Stokkseyri og Eyrarbakka, og fólkið, sem þar byggi, gæti náð upp á áveitusvæðið, til þess að heyja þar, og um leið haft stuðning af atvinnu við sjóinn. Það þarf að skifta landinu og koma skipulagi á það, hvar og hvernig menn vilja skifta jörðunum. En þarna eru nægilega margir þurrabúðarmenn til þess að taka við landinu og vinna það, og að jeg ekki vildi setja býlin niður á áveitusvæðinu, er af því, að ekki er víst, að hægt sje að koma bæjunum fyrir á eins góðum stöðum eins og í Ölfusinu og Holtunum, hjelt að þar væri betra að velja bæjarstæði, heldur en á áveitusvæðinu.

Þá held jeg, að það hafi ekki verið fleira, sem hv. 1. landsk. fann að þessu frv. Það er náttúrlega alveg rjett, að jeg held ekki svo fast við þetta form, að ekki megi eitthvað frá því víkja, og jeg skal taka það fram, að þetta er engin endanleg lausn á málinu í heild sinni. En jeg vil halda því fram, að eitt af því, sem fyrst og fremst beri að gera, sje að leysa úr spurningunum um ræktunarmálið.