22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Sigurðsson:

Jeg þykist sjá, að það sje meiningin að láta þetta frv. fara umræðulaust gegnum þessa umr., en jeg held, að full ástæða sje til að athuga það dálítið nánar, eftir þá atburði, sem nú hafa gerst. Frv. hefir að þessu komist áfram í kjölfar frv. um útrýming fjárkláða, sem verið var að fella rjett núna.

Aðalbreytingin, sem í þessu frv. felst, er sú, að umsjón með böðunum er flutt úr höndum hreppsnefnda í hendur hreppsstjóra. Nú er það svo, að í hreppsnefnd eru 3–7 menn, sem eiga heima víðsvegar um hreppinn. Þeir eiga að hafa með höndum fjárhag hreppsins og láta sjer venjulega ant um, að ekki hlaðist á hann mikil útgjöld. Það er kunnugt, að hreppsnefndir telja sjer skylt að vinna mörg störf án endurgjalds, og allir geta sjeð, hve miklu ljettara eftirlitið hlýtur að vera, þegar því er skift milli 3–7 manna, heldur en ef það er falið einum manni, hreppstjóranum. Hreppstjóra er að vísu heimilað eftir frv. að skipa eftirlitsmenn, en kvöðin um ókeypis vinnu er af tekin, því svo virðist sem hreppstjóri megi ákveða þessum eftirlitsmönnum borgun eftir vild.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir, að þegar vart verði kláða, skuli tvíbaða í hreppnum. Jeg sje af brtt. frá nefndinni, að hún hefir felt niður þetta ákvæði um tvær baðanir. Hún hefir víst komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hyggilegt, að binda þetta við 2 baðanir og ætlar þá líklega að ganga inn á þrjár. Jeg geri ekki ráð fyrir, að meiri hl. nefndarinnar sje svo einfaldur að halda, að hægt sje að útrýma kláða með einni böðun. Um þetta er ekki nema gott eitt að segja. Batnandi manni er best að lifa. Í þessari sömu grein er svo fyrir mælt, að gera skuli sjerstakar ráðstafanir, ef kláða verði vart, og það er ætlast til, að hreppstjóri gefi þær fyrirskipanir. Nú er ekki víst, að kláðinn bindi sig við einn hrepp. Hann gæti vel komið upp samtímis beggja megin við hreppamót, og þá sýnist æði hjákátlegt, að hafa enga yfirstjórn sem sagt geti til, hvernig með skuli fara. Hver hreppstjóri getur farið eftir sínu höfði. Í lögunum frá 1914 er þó gert ráð fyrir, að lögreglustjórinn í hverri sýslu skuli hafa yfirumsjón með þessum málum.

Þá leggur nefndin hreppstjórum á herðar mikla og margbrotna skýrslugerð. Þær eiga að gefa gott yfirlit um skoðun á fje, útbreiðslu kláða, böðun, hver baðlyf voru notuð, hvernig blönduð o. s. frv. Þetta virðist eiga að vera allítarleg skýrsla. En mjer er spurn: Hvaða meining er í því að heimta slíkar skýrslur úr sýslum, sem enginn kláði hefir komið í? Þær yrðu ekki nema nafnið tómt. Þetta, sem jeg hefi drepið á, eru aðeins hin smærri atriði. Þungamiðjan er í 8. gr., þar sem stjórninni er heimilað að láta fara fram svo víðtæka útrýmingarböðun sem henni sýnist. Með öðrum orðum, ef kláðakindum fjölgar t. d. í Suður-Múlasýslu eða Barðastrandarsýslu, þá er stjórnin, samkv. frv., í fylsta rjetti, þó að hún fyrirskipi útrýmingarböðun á öllu landinu.

Það er síður en svo, að jeg átelji nefndina fyrir þetta; það sýnir þó, að hún hefir sjeð svo mikla glætu í þessu kláðafriðunarmoldryki, sem hún hefir þyrlað hjer upp, að henni hefir þó fundist öruggara að hafa ákvæði fyrir stjórnina til þess að fyrirskipa útrýmingarböðun.

Það, sem jeg tel óverjandi hjá nefndinni, er, að framkvæmdaheimildinni skuli vera fleygt í hendur stjórnarinnar. Þetta stingur dálítið í stúf við ræðu hv. 2. þm. Árn. (JörB) í fyrradag, þar sem hann sagðist ekki vilja fá neinni stjórn slíkt vald í hendur, hvorki ríkisstjórninni eða stjórn Búnaðarfjelags Íslands, en í frv. afhendir hann stjórninni alt vald í þessum málum og skilur þar ekkert undan. — Þá var hann að bera þessi frv. saman, og talaði um rannsókn á baðlyfjum erlendis og sagði, að þar væri sífelt verið að rannsaka baðlyf og líta eftir, hvað best væri. Þetta er rjett, en það stafar ekki af því, sem þm. hjelt fram, að svo erfitt sje að rannsaka baðlyfin til hlítar, heldur er það af því, að altaf koma ný og ný baðlyf á markaðinn, sem þarf að rannsaka.

Jeg vil nú spyrja: Hver er munurinn á þessum ákvæðum, er heimila stjórninni vald til þess að fyrirskipa útrýmingarböðun, og þeirri heimild, sem fólst í brtt. okkar þm. Str. (TrÞ) og þm. V.-Húnv. (ÞórJ) við útrýmingarfrv., sem felt var áðan. — Jú, munurinn er sá, að eftir till. okkar eiga að fara fram ítarlegar rannsóknir og undirbúningur og fult tillit tekið til ástæðna bænda, heyafla o. fl. Eftir frv. nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir neinu slíku. Stjórnin hefir samkvæmt frv. vald til þess að fyrirskipa útrýmingarböðun, þegar henni þykir þess þörf. Og þá er ekki víst, að spurt verði eftir heyafla bænda. — Það er því vægast sagt, að frv. þetta sje þannig hugsað; að það sje ekki einu sinni á sumar setjandi.