22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg vil byrja á því, að mótmæla þeirri röngu yfirlýsingu hv. 2. þm. Skagf. (JS), að frv. þetta hafi aldrei verið rætt. Því jeg veit ekki betur en að það hafi verið rætt, og það meira að segja í einstökum greinum, við 1. umr. þess máls, sem nú, góðu heilli, er gengið til hvíldar fyrst um sinn. Þetta er satt, enda þótt háttv. 2. þm. Skagf. o. fl. muni það ekki, sakir þess að þeir eru haldnir (JakM: Af andleguni kláða!) — af þeim firrum, að vera á móti frv. þessu.

Dómur hv. 2. þm. Skagf. um frv. þetta er þannig, að ekki sjest í honum nokkurt rjettlæti. Það er t. d. ekki hægt með sanngirni að halda því fram, að í því sje engin bót frá því ástandi, sem nú er með sauðfjárbaðanir, því að í frv. eru mörg ákvæði, sem ekki eru í gildandi lögum, ákvæði, sem eru þess eðlis, ef að lögum verða, að fullkomlega er heimilt að vænta þess, að kláðinn útrýmist, svo að hans gætti alls ekki, ef hann þá ekki útrýmist með öllu, sem jeg tel mestar líkur til.

Háttv. þm. (JS) vildi halda því fram, að aðalbreytingin frá núgildandi lögum væri sú, að flytja framkvæmdirnar í þessum málum úr höndum hreppsnefndanna yfir á hreppstjórana. Þetta er ekki rjett. Það er aðeins bent til þess í 4. gr. frv., að sem best samvinna verði í þessum efnum á milli hreppsnefndar og hreppstjóra. Og jeg sje ekki, að kostnaðurinn við baðanirnar þurfi að verða meiri, þó að hreppstjórinn líti eftir þeim. Þetta er því firra ein, sem ekkert hefir við að styðjast, nema ef hv. 2. þm. Skagf. vill halda því fram, að hreppstjórarnir vilji yfirleitt gera hreppum sínum erfitt fyrir.

Þá sagði þessi hv. þm., að samkv. frv. gætu hreppstjórar skipað fyrir um baðanir og ávísað kostnaðinum úr sveitarsjóðnum eftir þörfum. Þetta er aðeins einn liðurinn í þeim mikla ósanngirnisvef, sem ofinn hefir verið gegn frv. Í því er aðeins bent til þess, sem vera mun í flestum sýslum, að eitthvað lítilsháttar sje borgað fyrir eftirlitið.

Þá skildist mjer á hv. 2. þm. Skagf., að hann teldi eftirlitið því tryggara sem það væri í fleiri manna höndum. Þessu er jeg algerlega ósamdóma. Jeg tel eftirlitið betur komið hjá einum manni en mörgum, og það ekki síst, þegar það á að vera í höndum þess manns, sem sóma síns vegna mun framkvæma það eins samviskusamlega og hægt er.

Þá vildi hann henda gaman að því, og kallaði það skriffinsku og óþarfa, að heimta skýrslur úr öllum sýslum landsins um böðun, útbreiðslu kláðans o. fl. jafnt hvort sem kláði væri eða ekki. Jeg skil ekkert í, hvernig slík fjarstæða getur komið frá honum, jafn skynsömum manni, að ekki sje nauðsynlegt að fylgjast með í þessum efnum. Einhver háttv. þm. skaut því fram, að þar sem enginn kláði væri, gætu hreppstjórarnir gert skýrslur þessar blindandi. Þetta og því um líkt er bara skop, og algerlega óviðeigandi í ekki óalvarlegra máli en þessu.

Þá mintist hv. 2. þm. Skagf. á 8. gr. frv. og kallaði hana „skyldur“ og fór mörgum orðum um, hvað í þeim feldist. (JS: Jeg talaði aðeins um skyldur í 7. gr.) Jæja, þá er að snúa sjer að henni, og þá býst jeg við, að við verðum sammála. Hv. þm. var að gera skop að meiri hl. landbn. og sagði, að hún hefði þó sjeð dálitla glætu í öllu þessu „kláðafriðunarmoldryki“, eins og hann orðaði það. Að meiri hl. landbn. hafi þyrlað upp einhverju „kláðaverndunarmoldryki“ er alger fjarstæða, og slíkt er mjög ómaklega mælt. Hann vill aðeins fá reynslu á því fyrirkomulagi, sem hann stingur upp á og hann telur, að happasælast verði fyrir þetta málefni. En að hann vilji vernda kláðann, er fjarri öllum sanni. Slíku er aðeins slegið fram, af þeim mönnum, sem engin rök hafa önnur en útúrsnúninga fram að færa.

Þá sagði þessi háttv. þm., að meiri hl. gerði ekki ráð fyrir neinum undirbúningi eða tilraunum með baðlyfin. Þetta er ekki rjett. Hann gerir þvert á móti ráð fyrir, að á þessum reynslutíma eigi að gera þær tilraunir, sem leiði það í ljós, hvort hægt sje að útrýma kláðanum algerlega eða ekki. Annars er svo gott að vita, að hæstv. atvrh., háttv. 2. þm. Skagf. o. fl. virðast ekki búast við, að hægt sje að útrýma kláðanum algerlega með þremur böðunum, því að þeir hafa sagt, að hann myndi þó að minsta kosti liggja niðri í 10–12 ár, ef alt fje yrði baðað 2–3 böðunum. En jeg hefi trú á því, að hægt sje að útrýma honum með þeirri aðferð, sem meiri hl. vill hafa, að auka eftirlitið frá því, sem nú er, og með því að baða 2–3, þar sem kláði fyrirfinst, og með því að afla málinu meiri samhugs en það hefir nú, því satt að segja eru til bændur víða á landinu, sem ekki einu sinni framkvæma með góðu þessa nauðsynlegu þrifaböðun.

Jeg þori nú alveg að fullyrða, að þeir, sem eru andvígir því, að frv. okkar gangi fram, eru það ekki af því, að þeir vilji ekki útrýma kláðanum, eða sakir þess, að þeir sjái ekki, að frv. gangi í rjetta átt, heldur er það af því, að þeir eru haldnir af svo mikilli mótstöðu við það, meðal annars sökum þess, að útrýmingarfrv. var felt, að þeir vilja ekki ganga inn á það.

Þá vil jeg benda á eitt ákvæði meðal margra í frv. þessu, sem er frábrugðið gildandi lögum um sauðfjárbaðanir. Hvar er t. d. nú til heimild til þess að láta sauðfjárböðun fara fram mönnum að nauðugu, nema þar sem kláði fyrirfinst? En þetta er hægt samkv. 7. gr. frv. Auk þess er gert ráð fyrir miklu aðhaldi í þessu skyni.

Þá má ennfremur benda á 9. gr. frv. Þar er beint gert ráð fyrir miklu samstarfi milli lögreglustjóra og hreppstjóra í þessum málum; sjerstaklega eiga þeir að sjá um, að lögum þessum sje framfylgt og leiðbeina eftirlitsmönnum við skýrslugerð o. fl.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta nú. Því eins og jeg hefi tekið fram, hefir það verið rætt hjer áður. Og finni andstæðingarnir ástæðu til að fella það, þá gera þeir það á sína ábyrgð. Jeg tel frv. mikla bót frá því fyrirkomulagi, sem nú er.