22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Það er ekkert aðalatriði fyrir mjer, hvort málið verði tekið út af dagskrá eða ekki. En sje það meining þeirra, sem þess óska, að koma málinu með því út úr veröldinni, þá þeir um það.

Það má vera, að sje hugsunarvilla í 6. gr. frv. En það er einkennilegt, að hæstv. atvrh. skyldi ekki benda á það fyr en nú við 3. umr. (MG: Það er nógur tími til að samþ. frv. fyrir því.) Það er óvíst; verði málið tekið út af dagskrá, getur sú töf valdið því, að það verði ekki samþ. á þessu þingi.

Hæstv. atvrh. lýsti yfir því, að enginn munur væri á þessu frv. og gildandi lögum. Jeg skal gefa það eftir, að svo er frá hans sjónarmiði, en jeg held fast við það, að munurinn sje mikill (PO: Það er engin ástæða til að gefa það eftir.) Mig furðar, að jafn glöggur maður og hæstv. atvrh. skuli ekki skilja niðurlagsákvæði 7. gr. Hann þykist í vafa um, hvaða aðiljar eigi að framkvæma þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja, ef vart verði kláða, eftir að kláðaböðun hefir farið fram. Merkilegir hlutir gerast nú á dögum!

Þá segir hæstv. atvrh., að varhugavert sje fyrir ríkissjóðinn, ef frv. yrði samþ. Þrátt fyrir besta vilja, sje jeg það ekki, því að sömu mönnum, hreppstjórum og lögreglustjórum, verða fengnar í hendur þessar ráðstafanir og samkv. frv. stjórnarinnar. Og veit hæstv. atvrh. dæmi til, að gengið hafi verið á snið við álit og ráðleggingar þessara manna, þegar kláða hefir orðið vart? Jeg veit ekki betur en að þá hafi altaf verið framkvæmd útrýmingarböðun samkvæmt ósk þeirra.

En þar sem þess hefir verið óskað, að málið væri tekið út af dagskrá, þá er mjer ekkert kappsmál að verða ekki við þeirri ósk. Og síst vil jeg gefa hv. þm. Str. tækifæri til að álíta, að jeg sje ekki einlægur í þessu máli. Jeg vona þá, að hans eigin einlægni verði ekki minni. En jeg verð að halda því fram, að ótal tækifæri hafi gefist til að koma fram með brtt. við þetta frv. því að aldrei hefir því verið slegið föstu, að hitt frv. gangi fram, enda lýstu ýmsir hv. þm. yfir því við 2. umr. þess frv., að þeir greiddu því aðeins atkv. til 3. umr. Jeg vil nú beina því til hæstv. forseta, hvort hann geti þá ekki tekið málið á dagskrá á morgun og hvort þær brtt, sem koma eiga fram, geti þá ekki verið komnar.