26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (2668)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mjer að gera aðra aths. — Jeg álít, að slíkt og þvílíkt, að 7 hv. þdm. hlaupist burt á þessum hluta þingtímans, án þess að mjer eða öðrum sjeu kunnar brýnar ástæður, megi alls ekki koma fyrir. — Fyrir fám dögum gekk skjal meðal þm., þar sem skorað var á forseta að flýta þingi sem mest, svo að því yrði lokið á hæfilegum tíma, mig minnir fyrir miðjan næsta mánuð. Undir þetta skjal skrifuðu auðvitað þessir hv. þm., sem ekki eru á fundi. En hvernig breyta þessir herrar svo eftir kenningum sínum? Þegar fer að líða að þinglokum, hlaupa þeir burtu í ferðalag, sem er án allra nauðsynja og ekki líklegt til að bera neinn góðan árangur, og jeg verð að segja að líkist helst flakki. Þannig tefja þeir fyrir hæfilegum framgangi mála og sýna fullkomið ráðleysi í meðferð bæði tíma og peninga þingsins. Annarsvegar sóa þeir of fjár í ferðalag, og hinsvegar sjest enginn árangur og minna en það. — Minn kæri vinur, hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) sagði, að ekki mætti hraða þessu máli svo, að það væri tekið til umr. núna. Já, skárri er það nú hraðinn! Og ástæðan til, að ekki má „hraða“ málinu er helst sú, að hv. þm. Str. (TrÞ) á ekki að hafa tækifæri til að mæla fyrir brtt. sínum. Jeg vil í fullri vinsemd benda hv. þd. á, að meginatriði í þessum brtt. hefir þegar verið felt, auk þess sem hv. flm. þeirra hefir fult færi á að vera hjer viðstaddur og mæla fyrir þeim. Hann vissi vel, að málið væri á dagskrá, og jeg veit ekki til, að nokkur maður bannaði honum að sitja kyr í bænum og standa fyrir sínu máli. Og við alt þetta bætist loks, að jeg veit, að hann gerði sjálfur ráð fyrir að málið yrði nú tekið fyrir. Jeg átti tal við hann, er hann var að skjótast út í bifreiðina, svo að þetta fer ekki margra á milli. Hann hefir víst engum falið að mæla fyrir till., en það sýnir aðeins það eitt, að hann skildi, að þegar var búið að ræða þær nóg — og kannske vel það — í sambandi við annað mál.

Það, sem jeg er annars mest hissa á í sambandi við fjarveru þessara 7 hv. þingherra, er, að hv. þm. Borgf. (PO), sem er allra manna sparsamastur, getur fengið sig til að taka þátt í annari eins flökkuferð og þessari. Það hefði verið líkara skapferli þess manns, eins og jeg hefi kynst því undanfarið, að vera á sínum rjetta stað og neyta atkvæðis síns. — Jeg sje, að hv. þd. hlær að því, sem jeg segi, en mjer finst það alt annað en hlægilegt að fara svona með landsins fje. Hv. allshn. fór í álíka ferðalag í fyrra, kostaði til þess nálægt 1000 kr. af almannafje. — En hvar er árangurinn?