26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg verð enn að standa upp til að bera af mjer sakir. Jeg vil vísa til föðurhúsanna þeim ómætu orðum hv. þm., þess er nú settist niður (ÁJ), að jeg hafi reiðst hv. fjvn. fyrir að biðja mig ekki fararleyfis. Það er naumast, að hv. þm. álítur mig hrokafullan, ef hann hefir getað í fullri alvöru álitið, að jeg teldi mjer misboðið af því, að ferðamennirnir báðu mig ekki fararleyfis, og veit jeg ekki, hvenær hann hefir reynt slíkt af mjer. — Þá mintist hv. þm. á ferðalag annarar nefndar og fór þar eins og köttur kringum heitt soð og sagði ekkert, sem máli skifti. Jeg var því ferðalagi altaf mótfallinn (ÁJ: Við gleymdum að fá ferðaleyfi hjá hv. þm.!). — Jeg ætla ekki frekar að eyða orðum að misskilningi þessa hv. þm., sem raunar var enginn misskilningur, heldur aðeins hitt, að hann vill gera mjer óvirðingu. Jeg ann honum þá í þess stað sómans af þessari framkomu sinni og hinum góða árangri af för allsherjarnefndar Nd. í fyrra.