30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Magnús Torfason:

Það er eitt dýr hjer í landi, sem talið er ágætt eldsneyti. Það er grasmaðkurinn, eða tólffótungurinn. En nú virðist svo sem kláðamaurinn sje það líka, því að það má ekki nærri honum koma, því að þá fer alt í blossa.

Jeg hefi haldið mjer frá þessu máli að mestu leyti, en jeg kemst nú ekki hjá því, að segja nokkur orð út af því, sem sagt hefir verið áður við umr. um gagnsemi þessa frv. Það var sagt, að frv. væri litlu betra en núgildandi lög. Þessu mótmæli jeg og skírskota þar til ræðu hv. þm. Borgf., sem sýndi fram á það, að munurinn er mjög mikill. Jeg legg sjerstaklega mikið upp úr 1. og 8. gr. frv., því að með þeim er atvinnumálaráðherra gerður að kláðakóngi. Þar er það skýrt tekið fram, að Alþingi leggur á atvrh. ábyrgðina á því, að halda kláðanum niðri, og fær honum bæði vald og fje til þess. Jeg tek þetta fram út af því, að sumir hafa sagt, að það hafi verið metnaðarmál, að hitt frv. var felt. Fyrir mjer var það ekki metnaðarmál, en jeg álít, að útrýming kláðans sje ekki nægilega undirbúin, en með þessu vil jeg sýna atvinnumálaráðherra það traust, að fela honum að halda kláðanum í skefjum og fá honum nægilegt fje til þess.

Að öðru leyti verð jeg að geta þess, út af því, sem sagt hefir verið um það, að lögreglustjórum beri ekki skylda til að sjá um að lögunum sje framfylgt, að þetta er hreint og beint lögreglumál og að þeir eru því að sjálfsögðu skyldir að sjá um, að lögunum verði hlýtt og framfylgt.

Þá kem jeg að því atriðinu, sem aðallega knúði mig til þess að standa upp, en það eru brtt. hv. 2. þm. Árn. (JörB) á þskj. 422, og þá sjerstaklega, brtt. um það, að þóknun til eftirlitsmanna greiðist úr sveitar- eða bæjarsjóði og að hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarstjórn ákveði hana. Þessari brtt. verð jeg að mótmæla, því að jeg er alveg á móti henni. Þegar horfellisskoðunin fór fram, fengu skoðunarmenn 2 kr. á dag, og í sumum sveitum voru teknir til þess aumingjar, sem voru alveg óhæfir til þess verks. Jeg veit, að þessi brtt. fer í þá átt að minka kostnaðinn við skoðunina, en þá er hætt við, að færi eins og um horfellisskoðunina, að til hennar verði valdir algerlega óhæfir menn. En ef það er alvara okkar að útrýma fjárkláðanum, þá tjóar ekki að nema kostnaðinn við neglur sjer. Fjárframlögin verða að vera svo ríf, að hæfir menn fáist til eftirlitsins. Þess vegna mun jeg greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 422, 3, en jeg mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 387.

Það var minst á það, að brtt. á þskj. 423 væri ráðstöfun, sem næði langt fram í tímann. Jeg hefi jafnan verið á móti slíkum ráðstöfunum langt fram í tímann, og jeg fæ ekki betur sjeð en að með þessu eigi einmitt að viðhalda kláðaóþrifum í fje fram til 1930. Þar eru líka feld burtu þau ákvæði 8. gr., sem gera atvinnumálaráðherra að kláðakóngi. Þó eru till. hv. þm. Mýrm. (PÞ) enn verri, því að þær fara fram á það, að viðhalda kláðanum þangað til 1931. Þess vegna verð jeg að vera á móti báðum þessum brtt., brtt. á þskj. 423 og brtt. hv. þm. Mýr. við þær. Aftur get jeg fylgt 1. brtt. hv. þm. Mýr. á þskj. 448, en held, að breyting á 7. gr. verði ekki til neinna bóta og vil þar halda við frv.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði um óþrif í fje í Rangárvallasýslu, þá vil jeg taka það fram, að jeg vissi ekki betur en lesið væri hjer upp í deildinni, að þar hefðu fundist 85 kláðakindur. Hv. þm. Str. hefir víst átt við kláða í Holti í sambandi við möguleika á því, að hann gæti borist til Skaftafellssýslu.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira en orðið er, en jeg lít svo á, að með lögum eins og þessum sje atvrh. í lófa lagið að halda kláðanum svo í skefjum, að hann geri ekkert tjón. Jeg ber fylsta traust bæði til þess atvrh., sem nú er, og hvers annars sem væri, í þessu efni.