30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eins og máli þessu er nú komið, þykist jeg sjá það fyrir, að ekki verði úr neinni lagasetningu á þessu þingi um þetta efni. Jeg sje því ekki, að þetta þurfi að vera neitt hitamál. En það, sem nú liggur beint við, er að bera saman og athuga, hvort betra er, það sem nú er í lögum um þetta efni, eða frv. þetta. Hv. þm. Borgf. var hissa á því, að nokkur skyldi halda því fram, að þetta frv. væri ekki betra og nefndi tvö atriði, sem áttu að sýna yfirburði þessa frv. Í fyrsta lagi var það eftirlitið, sem átti að vera miklu betra, og eftir þessu nýja frv. átti að mega valdbjóða böðun hjá þeim mönnum, sem vanrækja að baða. Um eftirlitið er það að segja, að hreppstjórar og lögreglustjórar eru skyldir til að sjá um, að baðanir fari fram, eða með öðrum orðum að lögunum sje framfylgt. — En nú hafa hreppsnefndir einnig eftirlitið á hendi, og er það vitanlega heppilegt, vegna þess að hreppsnefndarmenn eru dreifðir um sveitina og eiga því auðveldara með að líta eftir. Þetta hefir nefndin fundið, og því talið nauðsynlegt, að hreppstjórar hefðu umboðsmenn og kæmu þeir þá í staðinn fyrir hreppsnefndarmennina. Jeg get ekki sjeð, að neitt tryggilegar sje um eftirlitið búið nú, eftir þessu frv. Eftirlitið verður mjög svipað og alls ekki hægt að staðhæfa, að það verði betra eftir frv. en gildandi lögum.

Svo er annað atriði, sem hv. þm. Borgf. benti á, og það var það, að eftir lögunum frá 1914 lægju aðeins sektir við, en eftir frv. bæði sektir og valdböðun, ef vanrækt væri að baða. En ef hv. þm. athugar lögin frá 1914, mun hann sjá, að í 2. gr. er ákveðið, að allir fjáreigendur eru skyldir til að framkvæma böðun á vissum tíma. Og ef þessum ákvæðum er ekki hlýtt, fær sá, er sekur gerist um það, bæði sektir og auk þess skyldur til að baða, þó að það sje ekki tekið fram í lögunum. Jeg skil ekki í, að nokkur hv. þdm. haldi, að ef maður er skyldur til að inna eitthvað af hendi á ákveðnum tíma, til dæmis að baða fje sitt, þá geti hann keypt sig undan þeirri skyldu með því að greiða sektir. Nei, hann greiðir sekt fyrir að hafa ekki baðað á rjettum tíma, en skyldan til að baða fellur ekki niður fyrir það, og það er því hægt að láta framkvæma valdböðun á kostnað hins seka. (HK: Hvar er heimild til þess í gildandi lögum?). Heimildin liggur í skyldu yfirvaldanna til að sjá um að lögunum sje hlýtt. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir því, að hv. þm. Barð. (HK)

vilji halda því fram, að þjófur sje ekki skyldur til að skila þýfinu aftur, ef hann tekur út hegningu fyrir þjófnaðinn.

Nú er það svo með þetta frv., sem hjer liggur fyrir, að það á að nema úr gildi öll önnur fyrimæli um kláða, sem í gildi eru nú hjer á landi. En nú veit jeg ekki, hvort hv. þdm. hafa athugað lög frá 1901, sem heimila amtmanni, nú auðvitað stjórninni, að valdbjóða kláðaskoðun og sótthreinsun. Nú skildi jeg landbn. svo í fyrra, að hún vildi skerpa upp þessi ákvæði, og jeg man, að hv. þm. Barð. var á þeirri skoðun. (PO: Þetta stendur alt í 7. og 8. gr.). Við skulum nú líta á, hvað þar stendur; 7. gr. hljóðar svo:

„Nú verður vart fjárkláða í hreppi eða kaupstað, og er þá skylt að tvíbaða alt sauðfje kláðaböðun á því svæði, er fje gengur saman, á þann hátt, er hreppstjóri eða lögreglustjóri ákveða. Verði þá enn vart fjárkláða, skulu gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja til útrýmingar á honum.“

Og 8. gr.:

„Lítist atvinnumálaráðuneytinu, samkv. skýrslum þeim, er í 9. gr. getur, að fjárkláði sje að breiðast út, getur það fyrirskipað svo víðtæka kláðaböðun, sem það telur ástæður til.“

Hjer er öll ábyrgðin lögð á herðar stjórninni. En jeg vil miklu heldur, að þetta mál sje ákveðið af þinginu sjálfu en að allur vandinn sje lagður á stjórnina. Jeg er ekki að neita því, að þarna finst heimild til að láta framkvæma útrýmingarböðun eins og meðhaldsmenn frv. halda fram. En hvers vegna hafa þá þessir sömu menn lagt svo mikið kapp á að fella hitt frv., sem hjer var á ferðinni, og sem fór fram á algera útrýmingu? Sýnilega aðeins til þess að losa þingið við alla ábyrgðina og koma henni yfir á stjórnina. Nema ef það er eins og hv. þm. Mýr. hjelt fram, að ekki komi til, að það þurfi að útrýma kláðanum með böðun. Hann muni eyðast. En ef það er tilætlunin, þá er hitt aðeins blekking, að vera að halda því fram, að þarna fái stjórnin heimild til að láta fara fram útrýmingarböðun, einungis til þess gerð að fá okkur hina til þess að samþ. þetta, á alt öðrum grundvelli en það er fram borið.

Að svo komnu máli sje jeg enga ástæðu til að afgreiða málið nú, úr því það ekki fjekst afgreitt á þeim eina grundvelli, sem líklegur er til árangurs. Jeg fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, að þó að framkvæmdar væru þrifabaðanir í 100 ár, þá yrði kláðanum ekki útrýmt. Það verður altaf kák, og þó að eitt hjerað sje orðið kláðalaust, þá flytjast þangað menn úr kláðahjeruðum, og kláðinn gýs þá upp aftur. Þannig breiðist hann sífelt út og flyst milli hjeraða, meðan hann er ekki tekinn rjettum tökum.