30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Pjetur Ottesen:

Jeg gat þess áðan, að jeg teldi þetta mál svo mikilsvert, að full þörf væri á að menn athuguðu það með alvöru og ró, áður en þeir greiddu atkv., og vil jeg endurtaka þessa ósk.

Jeg kemst ekki hjá því að svara hæstv. atvrh. nokkrum orðum. Hann reyndi að hrekja það, sem jeg hafði sagt, um, hver munur væri á þessu frv. og gildandi lögum um þrifabaðananir. Hann leit svo á, að eins tryggilegt væri að fela hreppsnefndum framkvæmdarvald í þessum málum, eins og að fá það í hendur hreppstjórum; þeir mundu altaf vaka yfir gerðum hreppsnefndanna, eins og þeir hefðu sjálfir eftirlitið. Jeg er sannast sagt hissa, hvernig hæstv. ráðh. (MG), sem fæddur er og uppalinn í sveit og auk þess verið sýslumaður um nokkur ár í einni af stærstu landbúnaðarsýslum þessa lands, getur sagt annað eins og þetta. Það er alkunna, að margir hreppar eru svo stórir og strjálbygðir, að hreppstjórarnir þyrftu að vera á sífeldu ferðalagi um þá fram og aftur, ef þeir ættu að fylgjast til hlítar með því, hvernig baðanirnar eru framkvæmdar. En hvernig getur nú hæstv. atvrh. eða nokkur annar heimtað, að þeir eyði tíma sínum í slík ferðalög, án þess að fá nokkurn eyri fyrir? — Sá er munurinn, að eftir þessu frv. er þeim falin forystan í böðununum og ætluð fyrir svo mikil þóknun, að þeir geti keypt aðra til að vinna fyrir sig hin nauðsynlegustu verk, er þeir þyrftu annars að láta niður falla. Hreppstjóralaun eru svo lág og svo litlar aukatekjur þeirra, að ómögulegt er með nokkurri sanngirni að heimta, að þeir leggi fram mikið verk og eyði miklum tíma í þetta borgunarlaust. — Þá er sá munur, að eftir frv. á yfirumsjónin að vera í höndum eins manns í hreppnum, í stað þess að eftir gildandi lögum er hún hjá allri hreppsnefndinni, þremur, fimm eða sjö mönnum, eftir því hver tala hreppsnefndarmanna er á hverjum stað. (ÞórJ: Eiga ekki hreppstjórarnir að fá sjer aðstoðarmenn?). Jú, víst eiga þeir að fá sjer aðstoðarmenn, að svo miklu leyti sem þeir geta ekki annað eftirlitinu sjálfir, en þeir eiga að bera ábyrgð á, að verkið sje forsvaranlega framkvæmt og hafa yfirumsjónina. — Þá er eitt atriði enn. Eins og jeg gat um áðan er hvergi getið um það í lögunum, hvaða ráðstafanir eigi að gera, ef einhver neitar að baða. Jeg gæti hugsað mjer, að það hefði átt að taka fram í reglugerð, en hún hefir aldrei komið út. Hvergi í þessum lögum er heldur tekið fram, hvernig eigi að ná kostnaðinum, ef einhver neitar að borga. Lögin leyfa ekki lögtak. En það er heimilað í öllum öðrum lögum um svipað efni, svo sem sjálfsagt er. Í stjfrv. um útrýmingarböðun var lögtak heimilað, og eins í þessu frv. í öllum fjallskilareglugerðum landsins er svo ákveðið, að ef maður láti undir höfuð leggjast að hlýðnast fyrirskipunum, t. d. um að senda mann í leitir, þá megi á kostnað þess manns kaupa annan til þess. Í þessu sambandi má líka vitna í vegalög og fleiri lög, þar sem tilsvarandi ákvæði eru. En í gildandi lögum um sauðfjárbaðanir eru engin ákvæði um að beita megi þvingunarráðstöfunum gegn þeim, sem þrjóskast við að hlýða fyrirmælum laganna. — Hæstv. atvrh. talaði um, að það mundi vera hæpið að nema úr gildi lögin frá 1901. Jeg hefi áður bent á, að öll ákvæði þeirra eru tekin upp í 8. gr. þessa frv., og því einu breytt, að sett er stjórnarráð í staðinn fyrir amtmann, svo sem gefur að skilja. Fleira þarf jeg ekki að taka til meðferðar af því, sem hæstv. atvrh. sagði. Hv. 2. þm. Árn. hefir svarað ræðu hans að öðru leyti.

Þá fór hv. þm. Dal. um þetta frv. nokkrum orðum; sagðist nú ekki lengur geta látið við það eitt sitja, að rjetta upp hendurnar. Jeg held líka, að það hafi verið rjett fyrir hann að klóra ögn yfir það í ræðu, ef hann ætlar að greiða atkv. á móti þessu frv. Hann talaði mikið um kák. En þar vil jeg benda honum á, að hann miðaði alt við núgildandi lög, og að alt öðru máli verður að gegna, ef þetta frv. nær fram að ganga. Einnig sagði hv. þm. (JG), að hæstv. landsstjórn væri betur treystandi í kláðamálefnum heldur en meiri hl. Alþingis. Honum gefst nú kostur á að votta stjórninni traust sitt, með því að greiða atkv. með þessu frv.; það er alt eitt traust á henni; hún á að hafa yfirumsjón og stjórn baðananna. Jeg get ekki skilið, hvernig hv. þm. Dal. fer að sleppa svona ágætu tækifæri til að votta hæstv. stjórn traust sitt. — Þá sagði sami hv. þm., að Myklestadsböðunin hefði verið mesti búhnykkurinn, sem við hefðum gert á síðari árum. Það hefir hann raunar sagt um tvö mál áður, en það gerir minna til. Við stuðningsmenn þessa frv. játum það fúslega, að þar hafi náðst mikill árangur af einni böðun. En hversu miklu meiri verður ekki árangurinn, ef baðað er á hverju ári og eftirlitið er skerpt frá því, sem nú er, eins og frv. gerir ráð fyrir. — Hv. þm. vitnaði í húsmæður, og sagði, að það væri venja þeirra, að gera hreint fyrir sínum dyrum. Vildi hann láta Alþingi gera hið sama. Nú gefst hv. þm. kostur á því við atkvgr. um þetta frv., að leggja því lið, að Alþingi geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli, með því að samþ. þetta frv.

Hv. þm. Str. sagði ekkert um málið sjálft, en var þó farinn ögn að rumska, því að hann sagðist ætla að vera á móti málinu nú, af þeim ástæðum, að það mundi ekki ná fram að ganga. Áður hefir hann verið því andvígur, af því að það væri gagnslaust. Hann var semsagt farinn að linast, og þótt jeg óski, að umr. megi bráðum verða lokið, vona jeg að þær dragist svo lengi, úr því hann er nú farinn að sjá að sjer á annað borð, að hann verði alveg snúinn á sveif með frv. við atkvgr. Það er nógur tími til að afgreiða málið. Þessi hv. þm. var eitthvað að tala um kjósendadaður í þessu sambandi. Jeg minnist þess í því sambandi, að í fyrra var hann andvígur útrýmingarböðun og gerði afskaplega reikninga um kostnaðinn, sem af henni mundi leiða. (TrÞ: Jeg var með heimildarlögum!) Jeg skal ekki fullyrða, að ákefð hans nú gegn þessu frv. — sem raunar er farin að linast — stafi af því, að kosningar eru nær, og að komið hafa upp einhverjar raddir um það síðan í fyrra í Strandasýslu, að þeir óskuðu eftir útrýmingarböðun. En jeg skal minna hann á, að það kemur oft fyrir, þegar menn ætla að slá aðra, að þá hitta þeir sjálfa sig í staðinn.