30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki löngun til að karpa mikið meira um þetta mál, en jeg kemst þó ekki hjá að segja örfá orð út af eftirlitinu. Jeg get ekki sjeð, að hrepptjórunum sje eftir frv. ætlað að ferðast neitt um. (PO: Þeim er lagt það í sjálfsvald.) Ekki sje jeg heldur í frv. talað um neina þóknun til þeirra. (PO: Hreppstjórarnir verða eftirlitsmenn.) Nei, þeir eiga aðeins að útnefna eftirlitsmenn. Eftirlitsmennirnir eiga að fá borgun, en hreppstjórarnir enga. (JörB: Það er beint sagt í frv., að þeir eigi að fá borgun!) Vill hv. þm. benda mjer á, hvar það stendur? Jeg get hvergi sjeð það, og þykist þó vera læs. — Þá er einnig skilningurinn á 2. gr. laganna frá 1914, sem jeg þarf að gera aths. við. Vitanlega verður sá, sem dæmdur er í sekt fyrir að baða ekki fjenað sinn, jafnframt dæmdur til að baða vissan dag, og þvingaður til þess með dagsektum, sem er hin venjulega aðferð í svona tilfellum. Jeg þykist vita, að þeir tveir hv. hreppstjórar (PO og HK), sem andmælt hafa orðum mínum, hljóti að skilja, að skylda manna getur ekki fallið niður við það eitt, að svíkjast undan henni. — Hv. þm. Barð. talaði um, að málaferli geti leitt af framkvæmd laganna eins og hún er nú. Þetta er auðvitað alveg rjett. En hvernig er hægt að gera lögin svo úr garði, að ekki geti leitt málaferli af framkvæmd þeirra?

Ef einhver neitar t. d. eftirlitsmanni eftir þessu frv. um að koma í fjárhús sín, þá verður hann að fá dómsúrskurð til að geta farið þar inn með valdi.