02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson:

)* Jeg skal ekki hafa mörg orð um þetta mál nú, því að eg get að mestu látið nægja að vísa til nál. á þskj. 415. Nefndin er á sama máli og hv. flm. frv. þessa um það, að veiki sú, er hjer um ræðir, sje hinn mesti vágestur, sem hingað gæti borist, og sökum þess beri nauðsyn til að gæta allrar varúðar. Þá hefir nefndin átt tal um þetta við hæstv. atvrh. (MG), en hann telur hættuna á því, að veiki þessi berist hingað, ekki eins mikla og af er látið, og því til sönnunar bendir hann á það, að undanfarin ár hafi veikin verið í Danmörku, en hafi samt ekki borist hingað, þrátt fyrir það, þó að engar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar. En nefndin vill eindregið beina því til hæstv. stjórnar, að gera alt, sem hægt er til þess að sporna við því, að veikin berist hingað. Og jeg get látið í ljós, að jeg er ekki ánægður með, að stjórnin skyldi ekki vera viðbragðsskjótari á síðast liðnu hausti að gera varúðarráðstafanir, eftir að veikin hafði borist til Noregs.

Nefndin hefir ekki getað aðhylst frv., vegna þess að hún álítur, að málið sje ekki svo undirbúið sem skyldi. Hefir nefndin leitast við að fá upplýsingar um það, hverja löggjöf Bretar hafa sett hjá sjer um þetta efni, síðan veikin barst til Noregs, þar sem líkt stendur á og hjer. En hún hefir ekki getað fengið þær upplýsingar. En svona löggjöf verður að vera í samræmi við samskonar löggjöf annara þjóða.

Nefndin vill láta sitja við lögin frá síðasta þingi og telur, að þau feli í sjer nægilega heimild til þess að banna aðflutning á öllu því, er sýkingarhætta getur stafað af, ef þeim er fylgt fram með röggsemi. Hún vill því vísa málinu til hæstv. stjórnar, með eindreginni áskorun til hennar um það, að sporna við því af fremsta megni, að gin- og klaufasýkin berist hingað.

*Ræðuhandr. ólesið af þm.