02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (2697)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson):

* Jeg skal svara hæstv. atvrh. (MG) með fáum orðum, og sjerstaklega skal jeg vera stuttorður, vegna þess að hann þarf að fara upp í hv. Ed., enda þótt jeg efist um, að það mál, sem þar er á dagskrá, sje þýðingarmeira en þetta mál.

Hv. flm. (PO) þótti það hafa dregist lengi hjá nefndinni að skila áliti sínu og sagði, að 4 vikur væru síðan hún fjekk málið í sínar hendur. Þetta mun vera rjett, en það eru þó nokkrir dagar síðan nál. kom. Og út af þessu vil jeg benda á það, að nefndin hefir haft mjög mörg mál til meðferðar á þessum tíma, og ekki látið þetta mál sitja á hakanum.

Hv. flm. vildi ekki ganga inn á það, að málið væri illa undirbúið að þessu sinni. En jeg verð að geta þess, að við 1. umr. tók hann alls eigi til máls, og þær upplýsingar, sem hann gat gefið, hefir hann komið fram með fyrst nú. Hann mintist á það, að í frv. væri taldar ýmsar vörur, sem ekki eru nefndar í heimildarlögunum frá síðasta þingi. Það er að vísu rjett, en mjer skilst, að samkvæmt orðalagi 2. gr. heimildarlaganna, þar sem taldar eru upp þær vörur, sem stjórnin má banna innflutning á, að hún geti líka bannað innflutning á þeim vörum, sem taldar eru hjer í frv., því að í niðurlagi greinarinnar segir svo: „og öðrum þeim vörum, sem sjerstök hætta telst á, að sóttnæmi geti borist með.“

Upptalningin í þessu frv. á að vera tæmandi, og færi svo, að einhverjar vörur flyttust hingað aðrar, sem reynslan sýndi, að veikin gæti borist með, þá væri ver um varnir búið með frv., heldur en með heimildarlögunum.

Jeg er ekki fyllilega ánægður með það, sem hæstv. atvrh. sagði, og jeg vil fá það ótvírætt í ljós frá hans hálfu, hvort hann teldi sig ekki hafa heimild til, samkv. lögunum í fyrra, að banna innflutning á þeim vörum, sem taldar eru í frv. Ef svo er, þá tel jeg það góða bending til stjórnarinnar um það, hvað hún á að gera, að þetta frv. kom hjer fram og umræður urðu um það.

Hugleiðingum hv. flm. (PO) um eðli veikinnar þarf jeg ekki að svara. Það eru allir sammála um, að alt beri að gera, sem hægt er, til að sporna við því, að veikin komi hingað.

Þá er eitt atriði í frv. nú, sem ekki er gert ráð fyrir í lögunum í fyrra, en það er um það, ef veikin gæti borist hingað til landsins. Nefndin hefir litið þannig á, að reglugerð sú, er hæstv. stjórn setti í desember síðast, bendi til þess, að stjórnin álíti, að hún hefði heimild til þess að gera ráðstafanir viðvíkjandi útlendingum, er hingað koma, eftir lögunum frá því í fyrra. En nú hefir hæstv. atvrh. verið á undanhaldi í því efni. Er leitt, að hæstv. atvrh. álítur, að hann geti ekki samkv. lögunum frá því í fyrra gert svo viðtækar ráðstafanir. Ætti hann þá ekki að taka við þessari afgreiðslu málsins nú. Vona jeg, að hann gefi nú skýringu á því, hvort hann álítur, að hann geti, samkvæmt lögunum frá því í fyrra, gert þær ráðstafanir, sem sjeu nægilega tryggar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.