02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Tryggvi Þórhallsson:

Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að ganga fram fyrir skjöldu um það, sem hv. aðalflm., þm. Borgf. (PO), hefir borið fram í máli þessu. En jeg tek undir það með honum, að það eru fleiri en hann, af flm. frv., sem ekki eru ánægðir með afgreiðslu hv. nefndar á þessu máli. Hjer er um svo alvarlegt mál að ræða, og þar eð löggjöfin um það er ekki nægilega trygg, þá get jeg ekki verið ánægður með, að málið fái þessa afgreiðslu.

Það er rjett, sem hæstv. atvrh. sagði, að það hefir komið fram sú kenning, að hjer sje um fóðrunarsjúkdóm að ræða. En búskaparlag okkar er nú farið að breytast í líka átt og ytra, og eftir því gæti veikin komið í kýrnar okkar hjer í Reykjavík og nágrenni. Þetta er að vísu ekki nema „teori“, en hitt er sannað, að þetta er smitandi sjúkdómur, sem berst á milli landa og veldur svo þungum búsifjum, að landbúnaðinum í nágrannalöndum okkar stafar ekki meiri hætta af öðrum sjúkdómum. Jeg álít því svo alvarlegt að bíða í þessu efni, ef gildandi löggjöf um það er ekki nægilega trygg, að hv. landbn. megi ekki spara sjer áreynslu nje halda frá sjer hendinni um að ganga svo frá málinu, að fulltrygt sje. Jeg get því ekki greitt atkv. með dagskránni, en álít, að gera mætti nauðsynlegar umbætur á frv. til 3 umr. — Jeg skýt því aðeins fram hjer, að jeg tek undir það með háttv. landbn., að mjer þótti hæstv. landstjórn ekki sýna næga rögg af sjer um að hindra það, að veikin bærist hingað, þegar vitað var, að hún var komin til Noregs og mikið var flutt þaðan af heyi hingað. Jeg veit að vísu, að hæstv. atvrh. hefir farið að ráðum dýralæknis í þessu efni, en hann var tregur til ráðstafana. En hæstv. atvrh. gat, eftir að búið var að banna innflutning, sjeð um. að ekki væri sett hey á land í Vestmannaeyjum. En það gerði hann ekki, og bendir það á megnustu óvarkárni og ljettúð í svo alvarlegu máli. Jeg vil nefna annað dæmi um framkvæmd landstjórnarinnar í þessu máli. Það er talin einna mesta hætta, að veikin geti borist með hálmi. Því er svo fyrir lagt, að hann sje brendur. Hjer í bænum er hann brendur í tjarnarendanum. Slæðist altaf mikið úr vögnunum á leiðinni. Stundum liggja hrúgurnar þarna áður en kveikt er í þeim. Þá fýkur hálmurinn inn á túnið mitt, og er helst að sjá, sem þessum ófögnuði sje stefnt á Laufáskýrnar. Þó tók út yfir fyrir skömmu, er jeg var á leiðinni hingað á þingfund. Þá stóðu nokkrar kindur og voru að jeta úr einni hálmhrúgunni í tjarnarendanum. Jeg tilkynti hæstv. ráðh. (MG) þetta, þegar í stað. — Er hægt að hugsa sjer öllu meira kæruleysi um framkvæmd eftirlits með, að veikin berist ekki hingað?

Það er auðvitað gott, að veikin hefir enn ekki borist hingað, en mál þetta er svo alvarlegt, að gera verður hinar ítrustu ráðstafanir til þess að hindra það, að hún komi hingað.