02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal leyfa mjer að svara fyrirspurn hv. frsm. (AJ) um það, hvort jeg telji ekki, að jeg hafi heimild til þess að banna innflutning á öllum vörum, sem hætta er á að veikin geti borist með. Jú, — með ráði dýralæknisins, en annars ekki. Þetta benti jeg þegar á í fyrra, að það væri lagt á vald dýralæknisins að ákveða, á hvaða vörum skyldi bannaður innflutningur, og þá mótmælti enginn þessum skilningi mínum. Jeg undrast, að það skuli þurfa að setja ný lög um þetta efni nú, ef menn líta svo á, að hægt sje að gera alt, sem nauðsynlegt er, með gildandi lögum.

Hvað því viðvíkur, sem jeg sagði um að þetta væri álitinn fóðursjúkdómur, þá skal jeg taka það fram, að jeg sagði ekkert um það, hvort sú skoðun væri rjett eða röng, en sagði aðeins, að það væri fræðisetning.

Hvað viðvíkur heyflutningum til Vestmannaeyja, þá skal jeg geta þess, að þar var aðeins um örfáa bagga að ræða og var leyft að flytja þá inn, vegna þess að Vestmannaeyingar voru heylausir og áttu erfitt með að fá hey úr landi, vegna þess, hve illa heyjaðist í fyrra sumar. Og það var leyft meðal annars með það fyrir augum, að Vestmannaeyingar eru í sjálfu sjer einangraðir og því altaf hægt að sporna við, að veikin flyttist þaðan, ef svo bæri undir. En jeg var ekki hræddur um, að veikin bærist með heyi norðan fjalls úr Noregi, heldur sunnan fjalls. Spaugi hv. þm. Str. (TrÞ) skal jeg svara í spaugi og segja honum að snúa sjer til lögreglustjórans í Reykjavík um brenslu á hálminum, því hans er að sjá um það verk. Jeg veit ekki, hvort hann á ilt útistandandi við háttv. þm. Str. (TrÞ), en enda þótt reykinn leggi að Laufási, þá mun þó sóttnæmið farið úr honum. En þegar hv. þm. (TrÞ) minnist á kindur á beit í hálminum, þá skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki sjeð það, heldur sjeð þær vera að róta í rusli þar, og það var á þeim tíma, sem bannaður var hálmur til umbúða, því að hann var aðeins leyfður til nýárs. Jeg skil varla, að hv. þm. Str. (TrÞ) ætlist til, að jeg brenni allan hálm sjálfur, sem til landsins kemur. Jeg hefi falið lögreglustjóranum að sjá um það, en skal nú rannsaka, hvort umkvörtun þessa hv. þm. er á rökum bygð.

Það hefir verið talað um, að stjórnin hafi verið seinleg í máli þessu, en jeg vil segja hv. nefnd það, að hún hefir ekki brugðið fljótar við en stjórnin í þessu máli, og tel jeg það sem viðurkenningu þess, að stjórnin hafi gert það, sem þurfti að gera.