02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að fara langt út í það, þó að ýmsir hv. þdm. líti svo á, að ekki sje jafn mikil hætta á því, að þessi veiki berist til okkar eins og til annara landa, sökum fjarlægðar landsins. En þó að svo kunni að virðast — en það er vitanlega ekkert nema tilgáta ein — þá rjettlætir það enganveginn, að slegið sje slöku við að gera nauðsynlegar ráðstafanir til öryggis því, að veikin komist ekki hingað. Er það hyggja mín, að þó að tómlæti okkar í þessu efni hafi ekki haft þær skelfilegu afleiðingar, sem búast hefði mátt við, þá sje um heppni að ræða, en ekki, að hægt sje að þakka það því, að við sjeum öruggir fyrir veikinni.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hv. frsm. (AJ). Er auðheyrt, að mál þetta hefir nú við umræðurnar upplýst mikið fyrir hv. frsm. (ÁJ) og hv. nefnd. í seinni ræðu hans kom það greinilega fram, að hv. nefnd, sem áður virðist hafa treyst gildandi lögum í þessu efni, hún sjer nú, að ekki er hægt að byggja öryggið á þeim lögum. Er það mjög leiðinlegt, að hv. nefnd skuli ekki hafa athugað þetta fyr en nú á síðustu stundu. Hv. frsm. vildi kenna því um, að hann og hv. nefnd hefði ekki fengið upplýsingar um málið frá mjer, þegar við 1. umr. En svo stóð á, þegar málið var til 1. umr. hjer í hv. deild, þá voru ýms mál á undan því á dagskrá, sem sýnt var, að mundu taka allan tíma hv. deildar. Jeg bað því hæstv. forseta að flytja málið fram fyrir hin málin, og hann varð við þeirri ósk minni, með því móti að það tæki ekki mikinn tíma. Jeg fór þess vegna ekki mikið nánar inn á málið heldur en gert er í ástæðunum fyrir frv., en þar er gerð grein fyrir málinu í höfuðdráttum, og mæltist jeg til þess við hv. nefnd þegar í upphafi, að hún tæki málið til rækilegrar athugunar og skilaði því eins fljótt og unt væri. Nú hefi jeg þrásinnis síðan átt tal við hv. nefndarmenn um það, hvað afgreiðslu málsins liði, en enginn þeirra hefir minst einu orði á það við mig, að jeg legði hv. nefnd til upplýsingar um málið, en það var jeg vitanlega reiðubúinn til að gera, hvenær sem var, ef þess hefði verið óskað. Jeg vil því algerlega vísa frá mjer þeirri ásökun, að nokkuð hafi staðið á því frá minni hendi að veita nefndinni upplýsingar.

Þá kom það og greinilega í ljós í ræðu hv. frsm., að hv. nefnd hefði ekki lagt mikla vinnu í það að athuga þetta mál, því út af samanburði mínum á gildandi lögum og frv., þá sagði hv. frsm., að upptalningin í frv. væri tæmandi, en samkv. gildandi lögum mætti banna innflutning fleiri vörutegunda en í þeim lögum væru taldar. En þetta sýnir ljóslega, að hv. nefnd hefir hlaupið alveg yfir 3. gr. frv., en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Atvinnumálaráðuneytinu er heimilt, með ráði dýralæknisins í Reykjavík, að banna einnig með auglýsingu innflutning frá sömu löndum og landshlutum á öðrum þeim vörum, sem hætta telst á, að sóttnæmi geti borist með.“

Jeg er alveg forviða yfir því, að hv. frsm. skuli hafa sjest yfir jafnstórt atriði í málinu sem þetta. Langar mig ekki til að vera að pexa neitt um málið, en hefði óskað, að háttv. landbn. hefði getað orðið sammála okkur flm. þessa frv. um að afgreiða þetta mál nú á þeim grundvelli, sem við leggjum til. Það hefir komið skýrt fram við umr. þessa máls, að það gegnir öðru máli um hin gildandi lög um þetta efni en frv., þar sem í lögunum eru ekki taldar upp nema nokkrar af þeim vörutegundum, sem við flm. tökum upp í frv., og í lögunum er það háð því, að dýralæknir ráði til þess að banna innflutning varanna að það verði gert, en í frv. er það ákveðið, að það skuli bannaður innflutningur á þeim, án þess að það sje bundið við álit dýralæknis eða landsstjórnar. Um gang veikinnar skal jeg ekki fjölyrða. En það er vitað, að veikin getur legið niðri um nokkurra ára bil, en blossað svo upp aftur. Hefi jeg sjeð þess getið í alfræðiorðabókum, að svo geti verið, t. d. um 4–5 ára skeið. Því er það greinilegt, að bakterian lifir, þótt ekki bóli á veikinni. Það hlýtur aftur á móti að hvetja til að setja sem fullkomnasta löggjöf um þessi atriði, en hlíta ekki ófullkomnum bráðabirgðaákvæðum til lengdar. Enda má benda á það, að skýrt er tekið fram í frv., að þessi ákvæði eru ekki aðeins bundin við þau lönd, þar sem alidýrasjúkdómar ganga, heldur og þar, sem vitað er um að þeir eru landlægir. — Hv. frsm. sagði, að nefndin væri nú í raun og veru búin að ganga inn á frv. (ÁJ: Nei!). Jeg vil því beina þeirri ósk til hans og hv. nefndar, að þau taki aftur beiðni sína um að taka málið af dagskrá, þar sem það hlýtur að tefja málið. Óski hv. nefnd nú, að það nái fram að ganga, á hún að stuðla að því að það komist nú til 3. umr., og koma þá með brtt. sínar.