02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla ekki að fara að tala um pexið, sem hv. þm. Ak. (BL) sagði, að væri uppistaðan og fyrirvafið í öllu því, sem jeg og fleiri hefðu sagt um málið. En jeg vona, að geta sýnt fram á, að það, sem hann lagði til málanna, verðskuldar ekki virðulegra nafn en þetta. — Hann talaði um það sem fjarstæðu, að banna innflutning á ull og dún. En þetta er tekið í frv., af því að nágrannaþjóðir okkar telja að gin- og klaufaveikin geti borist með þessum vörum, og er þetta einn liðurinn í þeim ráðstöfunum, sem nágrannaþjóðir vorar gera til að hefta útbreiðslu veikinnar. Ekki er heldur flutt hjer inn svo mikið af þessum vörum, að nein hætta geti verið á, að aðrar þjóðir rjúki upp á nef sjer út af innflutningsbanni á þeim vörutegundum. En jeg skal minna á annað atriði um ull og dún, sem snertir þetta mál. Ef gin- og klaufaveikin berst hingað — hvernig fer þá um sölu á okkar ull og dún? Reyndar þarf nú ekki að gera því skóna, að um mikla ullarframleiðslu væri að ræða, ef gin- og klaufaveikin bærist í sauðfjeð. En hvað sem því líður, þá eru þessir hlutir álitnir stórhættulegir með að bera veikina, og jeg get trúað, að flestar þjóðir bönnuðu innflutning á ull og dún frá okkur, ef veikin kæmi hjer.

Um reglur þær, er frv. setur um mannflutninga frá öðrum löndum, er það að segja, að þær eru alveg hliðstæðar þeim reglum, sem settar eru í Noregi og Danmörku um mannflutninga milli sýktra og ósýktra hjeraða. Af þessum ástæðum er óhugsandi, að nágrannaþjóðirnar fari að fetta fingur út í þær ráðstafanir.