04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jakob Möller:

Jeg verð að segja, að mjer finst þetta eitt hið furðulegasta frv., sem jeg hefi sjeð fram borið hjer á Alþingi. Hjer er farið fram á að banna innflutning frá löndum, sem þessi sjúkdómur er í, á vöru, sem hefir verið flutt inn frá þessum löndum svo lengi sem jeg veit. Auk þess er bannaður innflutningur á ýmsu, sem ómögulegt er að hafa eftirlit með. Í 2. gr. er sagt svo, að innflutningur skuli bannaður frá þeim löndum, sem alidýrasjúkdómar eru orðnir landlægir í. En nú var skýrt frá því við 2. umr., að ef gin- og klaufaveiki kæmi til einhvers lands, þá væri hún þar með orðin landlæg, því að hún gýs upp á 4 ára fresti. Ef því nokkurt vit á að vera í þessu, þá verður að líta á þetta sem viðskiftabann um aldur og æfi við lönd þau, sem sjúkdómurinn hefir komið í, og við skift við að undanförnu. Upptalning þess, sem bannað er að flytja inn, byrjar líka heppilega. Það er sem sje bannað að flytja inn fugla! Jeg hefi nú hingað til haldið, að fuglar sæju sjálfir um innflutning á sjer og ekki væri hægt að hefta hann með lagaboði. Hvernig hugsar hv. flm. sjer að stjórnin geti hindrað innflutning fuglanna? Jeg veit ekki betur en það væri upplýst í einu blaði hjer í bænum í vetur, að veikin hefði borist til Noregs með krákum. Þær hafa vitanlega flutt sig inn sjálfar. Þó þeir fuglar komi ekki hingað, þá getur veikin hæglega borist hingað með öðrum fuglum. Þetta ákvæði er því gersamlega þýðingarlaust og meiningarlaust. Þá er einnig bannað að flytja inn smjör, ost og egg. Þetta höfum við árum saman flutt inn frá Danmörku, þar sem veikin er landlæg, og aldrei orðið meint af. Þá er bannaður innflutningur á brúkuðum fatnaði. Hvernig á að framkvæma þetta ákvæði? Allir þeir, sem koma frá löndum, þar sem veikin er, verða að fara strípaðir á skipsfjöl og fá send ný föt niður á skip, þegar skipið kemur að landi. Ef þetta á að verða „effektivt“, verður þetta svo að vera, annars koma menn í brúkuðum fötum frá útlöndum, og eru þau þá smitandi. Jeg verð því að líta svo á, að það, sem farið er fram á í þessu frv., sje sumpart óframkvæmanlegt og sumpart ástæðulaust, þar sem engin hætta stafar af innflutningi sumra bannvaranna. Jeg þykist nú skilja, að þetta frv. eigi að ganga fram, þó að það sje aðgæslulítið fram borið. Jeg fæ ekki betur sjeð, en það sje algerlega óathugað í nefnd. Nefndin komst fyrst að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti enga nýja lagasetningu um þetta efni og vildi því vísa málinu til stjórnarinnar. En svo snarsnýst hún, og vill samþykkja frv. daginn eftir. Jeg hugsa, að nefndin hafi ekki athugað frv. mikið á þessari einu nóttu. En það þýðir víst ekki að ræða þetta mál mikið; það er víst svo um hnútana búið, að því er framgangur vís. En jeg vil að síðustu spyrja hæstv. atvrh. (MG), hvernig honum líst á að eiga að framkvæma þessi lög.