04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

97. mál, gin- og klaufaveiki

2713Pjetur Ottesen:

Jeg vil byrja á því, að þakka hv. landbn. stefnu þá, er hún hefir nú upp tekið og það kapp, sem hún sýnist leggja á, að frv. fái framgang. Einmitt með þessari afstöðu hv. nefndar kemur það glögglega fram, sem hún segir í nál. sínu, að hún er sammála flm. þessa frv., um að nauðsynlegt sje, að gerðar sjeu hinar ítrustu ráðstafanir til að verjast veikinni. Þótt skamt sje nú eftir þingtímans, vona jeg, að tími vinnist til að afgreiða þetta mál. Jeg hefi nú fyrir stundu leitt það í tal við menn úr landbn. í Ed., að þeir reyndu að greiða fyrir málinu, ef það kæmist þangað, og tóku þeir mjög vel í það. — Jeg þarf ekki að eyða tímanum í að svara fjarstæðum hv. 1. þm. Reykv. um þetta mál. Hv. frsm. hefir gert það svo rækilega, að jeg hefi engu þar við að bæta. Aðeins langar mig til að segja fáein orð við hæstv. atvrh. Hann lítur svo á, að hjer sje e. t. v. of langt gengið í að banna innflutning á ýmsum vörutegundum, og nefndi þar til bæði smjör og egg. Jeg held, að nokkurs misskilnings hafi þarna gætt hjá hæstv. ráðh. Þetta eru einmitt þeir hlutir, sem telja má hættulegasta. Enda leiðir það af sjálfu sjer, þar sem smjörið er framleitt úr mjólkinni ósótthreinsaðri. Eins er um eggin. Það er vísindalega sannað, að í eggjaskurninu leynast oft þessar bakteríur, og eins í himnu þeirri, er skjall heitir, sem er fyrir innan skurnið. — Nú er álitið, að hænsni hafi gott af því að eta eggjaskurn til kalkmyndunar, og þess vegna er það oft mulið handa þeim. Vona jeg að hv. þd. sjái, að ákaflega beint liggur við að óttast, að veikin berist til Íslands á þennan hátt, ef engar varúðarráðstafanir eru gerðar. Þetta styðst, eins og alt annað í frv., við reynslu nágrannaþjóðanna. — Þá talaði hæstv. ráðh. (MG) um, að of langt væri gengið með því að banna innflutning á burstavörum og varningi úr strái. Jeg vil að eins benda á, að engum hefir til hugar komið að banna innflutning á þessum vörum. Hann er fullkomlega heimill, samkvæmt frv., einungis verður að sótthreinsar vörurnar og vottorð um það að fylgja þeim. Jeg hefi átt tal við verslunarfróða menn um þessi fyrirmæli, og hafa þeir ekki álitið nein sjerstök vandkvæði á að framfylgja þeim. Hafa þeir álitið, að vel mætti fá verksmiðjurnar til að framkvæma þessa sótthreinsun, án þess að vörurnar þyrftu að hækka að nokkru ráði í verði. — Þá hjelt hæstv. ráðh. (MG), að við flm. hefðum ætlast til, að landbn. sniði af frv. okkar margt af því, sem við leggjum til, að bannaður sje innflutningur á. Ónei, við álitum varnirnar ekki öruggar, nema alt þetta væri tekið með. Helst gat verið vafamál um ullina, enda er nú fram komin brtt. um hana, sem við flm. höfum fallist á. — Síðan fór hæstv. ráðh. (MG) nokkrum orðum um millilandaviðskifti, og sagði, að varla væri leyfilegt að banna innflutning á einhverri vörutegund, nema hægt væri að færa fyrir því fullgildar ástæður. Jeg skil ekki, að hjer yrði neitt í vegi fyrir því, að færa fram fullgildar ástæður. Mætti þá t. d. vitna í þau lög, sem sjálf nágrannalönd okkar hafa sett um þessi efni. — Ef þetta frv. verður nú samþ. í þessari hv. deild, held jeg, að það þurfi varla að sæta miklum breytingum í hv. Ed., eða þurfi fyrir þá sök að heltast úr lest þeirra mála, er samþykt verða á þessu þingi. — Sje jeg svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.