04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Sigurjón Jónsson:

Jeg er einn þeirrar skoðunar, að þetta mál sje illa undirbúið og lítið athugað. Hygg jeg, að um margt sje of langt gengið í innflutningsbanninu gegn ýmsum vörutegundum í 2. gr. frv., t. d. um smjör, osta, egg o. fl., sem telja má nauðsynjavöru, a. m. k. í kaupstöðum landsins. — í 4. gr. er sagt, að hver sá maður, er kemur hingað til lands frá útlöndum, skuli „á fyrstu höfn, sem skipið hafnar sig á, áður en hann stígur af skipsfjöl gefa lögreglustjóra eða sóttvarnarlækni yfirlýsingu, að viðlögðum drengskap, um það, hvort hann hafi á síðustu þrem mánuðum áður en hann lagði í haf frá útlöndum, dvalið í sveit, þar sem gin- og klaufaveiki eða aðrir næmir alidýra- sjúkdómar hafa gengið síðastliðið ár.“ En nú eru fjöldamargar hafnir hjer á landi, þar sem hvorki er sóttvarnarlæknir nje lögreglustjóri, og þætti mjer fróðlegt að heyra, hvernig á að hátta framkvæmd laganna á þeim stöðum. — Hv. flm. (PO) óx ekki í augum sá kostnaðarauki, sem yrði að sótthreinsun á burstavörum. En jeg er hræddur um, að t. d. fiskburstar yrðu allmikið dýrari; en hver útgerðarstöð kaupir þá í stórum kössum, og þeir fara aldrei út fyrir fiskþvottahúsin, svo að ekki getur stafað af þeim nein sýkingarhætta. (PO: Þeir eru oft notaðir til að kemba stórgripum).

Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en leyfi mjer að taka upp hina rökstuddu dagskrá hv. landbn., sem prentuð er á þskj. 415.