04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson):

* Jeg hefi skýrt frá ástæðunum fyrir því, að landbn. hefir ekki gert víðtækari breytingar á frv. en kemur fram á þskj. 490; það stafar af því, að nefndin bjóst við öðrum undirtektum hjá hæstv. stjórn en raun varð á. En út af orðum hæstv. atvrh. vil jeg taka það fram, að nefndin var ekki að víta hæstv. stjórn fyrir framkvæmdir hennar í þessu máli. En hitt finst mjer undarlegt, hvernig hann hefir skilið dagskrártill. nefndarinnar, því að eftir orðum hans að dæma er ekki annað að sjá en að hann hafi lesið hana öfugt, eða eins og sagt er um eina vissa persónu, að hún lesi biblíuna. Dagskrártill. er í tveimur liðum og hefir nefndin lagt megináherslu á fyrri liðinu, eins og margbúið er að taka fram.

Þá kom hæstv. ráðh. (MG) enn að orðalagi brtt. nefndarinnar „með ráði dýralæknis“, og taldi sig geta komist undan allri ábyrgð um framkvæmdir málsins, en kastað henni yfir á dýralækni. Jeg býst ekki við, að mjer mundi takast að sannfæra hæstv. ráðh., þó að jeg færi að rökræða þetta frekar, en vitanlega þýðir þetta ekki annað nje meira en að dýralæknir sje í samráði við hæstv. atvrh. um framkvæmdirnar.

Þá sagði hæstv. ráðh. (MG), að hann vissi til, að framhaldsnál. á þskj. 490 væri samið strax eftir fundinn í fyrradag, en ekki borið undir nefndina. Það er að vísu rjett, að jeg ritaði uppkast að nál. þegar eftir að fundi sleit, en frá því var ekki endanlega gengið fyr en nefndin hafði átt fund með sjer og tekið afstöðu til þess.

Út af því, sem hæstv. atvrh. var að tala um innflutningsbann á smjöri, eggjum og soðnum osti, þá læt jeg mjer nægja að vísa til þess, sem hv. þm. Borgf. sagði um það efni. Þó skal jeg bæta því við, að með þessu er alls ekki algert bannaður innflutningur á þessum vörum. Því að vitanlega nær bannið aðeins til þeirra landa, sem vitanlegt er um, að veikin er í. Ef t. d. upp kemur, að veikin sje aldauða í Noregi, þá er horfin sú ástæða, að banna innflutning þaðan, og mætti þá flytja inn egg og þessa langþráðu, soðnu osta, og þar með fyrirbyggja, að hallæri verði í landinu af þessum ástæðum.

Hæstv. atvrh. þykir of langt gengið með frv. En hvers vegna leggur nefndin til, að svo langt sje gengið? Það er af því, að við 2. umr. málsins taldi hæstv. stjórn sig ekki hafa heimild eða vald til að fyrirskipa jafn víðtækar ráðstafanir sem hún hefir gert, til þess að verjast því, að þessi vágestur berist hingað; meðal annars taldi hún sig vanta heimild til þess að takmarka innflutning manna í þessu skyni. Hæstv. stjórn hefði því átt þegar í þingbyrjun að bera fram frv. til breytingar á heimildarlöggjöfinni frá í fyrra, er trygði henni rjett til að gera allar þær ráðstafanir, sem að dómi fróðra manna eru taldar nauðsynlegar til varnar veikinni.

Hæstv. atvrh. sagði líka, að málinu væri ekki gerður neinn greiði með því að halda því fram með slíku kappi og hjer er gert. En þar sem svo er áliðið þingsins, og málið á eftir að ganga gegnum hina deildina, þá virðist engin ástæða til að vera að tvínóna yfir afgreiðslu þess, ef það þá á annað borð er þingvilji, að það nái fram að ganga. Jeg veit, að hæstv. ráðh. (MG) verður aldrei áfeldur fyrir of miklar eða fastar aðgerðir í framkvæmdum þessa máls. Hitt mundi sönnu nær, að saka mætti hæstv. stjórn fyrir aðgerðaleysi, að hún hafi ekki verið á verði sem skyldi og ekki tekið nógu föstum tökum á ráðstöfunum sínum.

Þeim tveimur hv. þdm., sem talað hafa á móti frv., hefi jeg litlu að svara.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) benti á, að í smákauptúnum út um land væri enginn lögreglustjóri, er haft gæti eftirlit með innflutningi manna, er hingað leita frá útlöndum, og þar væri sumstaðar enginn læknir, er annast mætti um sóttvarnir. Þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, taldi hann því til einskis gagns. En jeg vil benda honum á, að í reglugerð þeirri, er hæstv. stjórn gaf út á milli þinga, eru þessi ákvæði, og þar gert ráð fyrir umboðsmönnum, sem framkvæmi þetta. Hann benti líka á, að ef ekki mætti flytja inn fiskbursta, nema þeir væru sótthreinsaðir áður en farið yrði að nota þá, gæti það tafið atvinnurekstur einstakra manna. Þetta má vel vera, þó að jeg geri ekki mikið úr því. En það mætti þá benda á aðra leið, og hún er sú, að setja hjer upp burstagerð. Þetta er ekki vandasöm iðn og ætti því að vera auðvelt að koma henni á. Nú, en dygði það ekki, væri önnur leið hugsanleg, t. d. að fá burstana frá þeim löndum, sem vissa er fyrir, að ekki eru sýkt. Og svo er um fleira, að það er ekki bannaður innflutningur, nema frá þeim löndum eða landshlutum, þar sem alidýrasjúkdómar ganga eða eru orðnir landlægir í, sbr. upphaf 2. gr.

Hv. 1. þm. Reykv. var enn með fuglafræði sína, að engin tiltök væru að banna innflutning alifugla, af því að ekki væri hægt að banna farfuglunum að leita hingað heim til átthaganna. Ef þessi „fuglahræða“ deildarinnar hefði rjett fyrir sjer, þá skal jeg játa, að erfitt mun vera að gera ráðstafanir gegn þessum faraldri, sem hjer er um að ræða. — Annars endaði hann með því að telja frv. með öllu þýðingarlaust. En jeg held, að það, sem skilur milli þeirra, sem frv. fylgja, og hinna, sem eru móti, sje það, að þeir síðarnefndu vilja ekkert aðhafast, sem orðið geti til óþæginda í bili, en við hinir fylgjum frv., þó við viðurkennum, að það sje ekki gallalaust, vegna þess, að það er álit okkar, að óþægindin sjeu svo smávægileg í samanburði við það tjón, sem gæti hlotist af því, að veikin bærist hingað. Því að ef við ekki samþ. frv., höfum við sáralítið öryggi fyrir því, að þessi skæði vágestur geti ekki borist hingað, og þá er um seinan að byrgja brunninn. Þess vegna verða hv. þdm. að líta meira á hag alþjóðar, heldur en að einblína á óþægindi þau, sem ráðstafanir eins og þessar geta valdið einstaka kjósendum í bili.

*Ræðuhandr. ólesið af þm.