04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jakob Möller:

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Str. Hann vænir okkur hv. þm. Ísaf. um það, að við lítum eingöngu á þægindi okkar kjósenda, er við mælum móti frv. Þessu leyfi jeg mjer að mótmæla sem rakalausum staðhæfingum. Þar sem hann gaf í skyn, að við værum móti þessu innflutningsbanni, vegna innflutningsvöru, sem bændur framleiða, og átti þar með við heyinnflutning, þá verð jeg að vekja athygli hans á því, að jeg hefi aldrei haldið fram, að hey ætti að flytjast eftir sem áður inn frá sýktum löndum. Andstaða mín gegn frv. byggist fyrst og fremst á því, að hjer er um einstrengingslegt bann að ræða, sem jeg tel, að þurfi ekki að vera, en betur komið fyrir í heimildarformi, sem svo er hægt að framfylgja, eftir því sem þörfin krefur. Mjer er fullljóst, að hjer er mikið í húfi, ekki aðeins bænda vegna, heldur allra landsmanna yfir höfuð, og jeg vil gera alt, sem hægt er, til að varna því, að þessi húsdýrasjúkdómur berist til landsins. En jeg sje okkur enga þörf á svona einstrengingslegri löggjöf. Og að setja einstrengingslegar ráðstafanir, sem jafnframt bera með sjer, að þær eru ekki annað en form, finst mjer fjarri öllu lagi.

Út af því, sem hv. frsm. (ÁJ) sagði, hefi jeg lítið að segja. Hann talaði í skoptón um mína fuglafræði, en jeg held hv. landbn. ætti ekki að tala um neina fuglafræði, því að það lítur út fyrir, að hún hafi ekki haldið, að til væru neinir fuglar aðrir en alifuglar. — Það var víst hv. þm. Str., sem var að tala um aðgreining á þessu, að það gæti orðið vænlegt til árangurs að banna innflutning á sumum fuglum, en öðrum ekki. Þetta er á sinn máta eins og að banna innflutning á notuðum karlmannafötum, en leyfa innflutning á notuðum kvenfatnaði. (TrÞ: Jeg hefi alls ekki talað um þetta!). Það var þá hv. frsm. (ÁJ). Það er þýðingarlaust bann gegn innflutningi, sem ekki er hægt að framfylgja, og það var aðallega það, sem jeg gerði að umtalsefni.

Jeg leyfi mjer að skjóta því til hæstv. forseta, af því að svo margar og rækilegar brtt. hafa fram komið við frv., hvort ekki væri æskilegt, að málið yrði tekið út af dagskrá áður en það fer frá hv. deild.