18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Ingvar Pálmason):

* Eins og nál. á þskj. 594 ber með sjer, hefir landbn. ekki getað orðið alveg sammála í þessu máli. Nefndin hafði málið til meðferðar á 5 fundum og athugaði það mjög ítarlega og komst að þeirri niðurstöðu að leggja til, að því yrði vísað til stjórnarinnar, með þeim forsendum, sem fram eru teknar í nál.

Það kom fram í nefndinni, að meiri hluti hennar taldi ýmsa galla á frv., svo að ekki væri hægt að ganga að því, nema með miklum breytingum. Hinsvegar var svo ástatt með mig, að jeg gat aðhylst frv., eins og það lá fyrir. En þar sem nú var svo mjög áliðið þingtímann, taldi jeg rjettara að reyna að ná samkomulagi um málið, og það tókst á þeim grundvelli, sem kemur fram í nál.

Nefndin var sammála um að leggja áherslu á, að það bæri að verjast þessum sjúkdómi, og til þess treystir nefndin stjórninni, að nota heimild þá, sem felst í 1. nr. 22, frá 15. júní 1926, svo rækilega sem hægt er. En telji stjórnin ekki í þeim felast nægilega heimild til tryggilegra ráðstafana til varnar veikinni, hefir nefndin ekkert við það að athuga, að hún gefi út bráðabirgðalög um þetta efni.

Það var orðið svo áliðið þingtímann, að jeg taldi mjög varhugavert að kljúfa nefndina, með því að meiri hl. hennar var ófáanlegur til að ganga að frv., nema með miklum breytingum, sem hefðu getað orðið til þess, að það yrði ekki afgr. frá þessu þingi. Jeg álít líka, að töluverð skerping felist í nál., og tel jeg, að málinu sje á þann hátt betur borgið en með því að afgreiða ekkert frá þinginu í þessu máli.

Jeg geri ráð fyrir því, að nokkrir hv. þdm. óski, að frv. gangi fram, en jeg tel, að með nál. sje sjeð fyrir því, að framkvæmd málsins geti verið einhlít og örugg, og varðar það, að mínu áliti, meiru en hitt, að lagaákvæðin sjeu mjög víðtæk. Nál. á þskj. 594 er einskonar áskorun til stjórnarinnar um að slaka í engu til á þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og herða á þeim, ef hún telur þess þörf, og við það held jeg að megi una.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni, en geri ráð fyrir, að sá meiri hl. í nefndinni, sem var frv. andstæður, geri einhverja grein fyrir sinni afstöðu.

Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.