03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

5. mál, iðja og iðnaður

Jón Baldvinsson:

Þetta frv. er hluti af lagabálki, sem talað hefir verið um á undanförnum þingum, að nauðsynlegt væri að setja til tryggingar hverskonar atvinnu eða iðnrekstri í landinu. í fyrra voru lögin um verslunaratvinnu samþykt í þinginu og nú liggur hjer fyrir frv. um iðnað og iðju.

Jeg hefi ekki mikið við þetta frv. að athuga og get að mörgu leyti fallist á það. Jeg álít rjett, að þeim mönnum, sem lært hafa einhverja handiðn, sje trygður rjettur samkv. lögum að stunda þá atvinnu.

Aðeins vildi jeg leyfa mjer áð skjóta því til hv. allshn. og hæstv. atvrh. (MG), hvort þeir gætu ekki fallist á, að viðurkenning sveinafjelags á því, hvenær iðnnemi sje fullnuma, jafngilti sveinsbrjefi.

Því er þannig varið um ýmsar iðngreinar, að þar verður ekki hægt að koma við prófi. Svo er t. d. um handiðn þá, er jeg hefi lært og stundað — prentiðn —, að þar er hvorki próf nje sveinsstykki heimtað fyrir því, að iðnnemi hafi lokið námi sínu, enda býst jeg við, að yrði það heimtað, þá yrði enginn setjari viðurkendur fullnuma í iðn sinni. Þess vegna vildi jeg mælast til, að hv. allshn. tæki þetta til athugunar fyrir 3. umr. Jeg skal líka bæta því við, að í öðrum löndum er það venja, að sveinafjelög í þeim iðngreinum, sem hvorki er heimtað próf nje sveinsstykki, gefa slíka viðurkenningu um, að nemandinn sje fullnuma og fær um að stunda iðn þá, er hann hefir lært til.

Þá eru það þessi leyfisbrjef samkvæmt 23. gr., sem gjalda á fyrir. Jeg verð nú að líta svo á, að þar sje óþarflega hátt farið, t. d. 50 kr. fyrir iðnbrjef og 100 kr. fyrir meistarabrjef, enda býst jeg við, að þetta sje sett í frv. af athugaleysi og miðist frekar við dýrtíðina nú heldur en að þetta eigi að standa áfram, þótt alt verðlag lækki. Jeg teldi nægilegt, að gjaldið fyrir iðnbrjef væri 10 kr. og þá fyrir meistarabrjef alt að 25 kr.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fylgja þeirri brtt. háttv. allshn., að sækja þurfi til atvinnumálaráðherra til þess að fá eftirgjöf á gjaldi fyrir slík brjef, ef ástæður þykja fyrir hendi um að færa það niður. Jeg felli mig betur við ákvæðið eins og það er í frv. Tel jeg, að það geti orðið tafsamt að fara til ráðherra í hvert sinn, sem einhver vill fá leyfisbrjef, en skortir fje að meira eða minna leyti til þess að leysa út brjefið.