18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Jónsson:

Jeg er talsvert óánægður með meðferð hv. landbn. á þessu máli. Það lítur svo út, að fyrst hafi nefndin legið lengi á málinu, og síðan legst meiri hl. hennar á móti frv.

Það var fyrst í vetur, þegar þessi hættulegi sjúkdómur geisaði í Noregi, að mönnum varð það alment ljóst hjer, hver hætta var á ferðum, og jafnvel þá varð vart tveggja strauma í þessu máli. Blað Framsókarflokksins hjer í bænum krafðist þess, að ríkisstjórnin gerði ráðstafanir til að verjast veikinni og hannaður yrði innflutningur á heyi og fleiri vörum, sem smithætta stafar af. En blað stjórnarflokksins gerði gys að málinu og ljet svo sem lítil hætta stafaði af þessari veiki, en þó fór svo að lokum, að raddirnar urðu svo háværar utan af landi og kröfurnar um það, að gerðar yrðu ráðstafanir til varnar veikinni, að stjórnin bannaði innflutning á heyi o. fl., samkv. heimild frá síðasta þingi. En bændur út um landið voru nú orðnir svo hræddir, að þeir söfnuðu undirskriftum undir áskoranir til Alþingis um það, að gera enn frekari varúðarráðstafanir en enn hafa verið gerðar. Undir þessar áskoranir hafa skrifað yfir 4 þús. af bændum landsins, og má sjá þær í skjölum þingsins.

Mjer þykir það einkennilegt hjá meiri hl. hv. landbn. að taka svo ljettúðlega á þessu máli: sitja fyrst á frv. óþarflega lengi, og leggja síðan til, að því sje vísað frá. Það er algerlega gagnslaust, að vísa málinu til stjórnarinnar, þar sem hún hefir sýnt sig andvíga frekari vörnum og yfirleitt mjög trega í taumi. Lagaákvæði er það eina, sem hjer má koma að gagni. Og jeg þori að fullyrða, að mjög litlar breytingar má gera á aðalatriðum þessa frv., ef von á að vera um árangur. — Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fram að fyrri hluta þessa vetrar voru allar varúðarráðstafanir gegn veikinni gersamlega gagnslausar. Þá skánuðu þær að vísu dálítið, en eru þó harla lítilfjörlegar enn. Ef hv. deild fellir þetta frv., hlýtur hæstv. stjórn að líta svo á, að ekki sje ætlast til neinna framkvæmda af henni. — Sá maður, sem mest hefir barist fyrir þessu máli, Ólafur Hvanndal prentmótasmiður, bar málið nýlega fram á fundi fulltrúa flestra kaupfjelaga landsins. Þar var í einu hljóði samþykt að skora á Alþingi að samþykkja frv. það, er hjer liggur fyrir. Þetta þótti þar svo sjálfsagt, að það var álitið hafið yfir allar umræður og samþykt í einu hljóði að gera ítrustu ráðstafanir til varnar.

Nú er mjer sagt, að dýralæknirinn standi á bak við hv. meiri hl. og hæstv. landsstjórn um að drepa málið. Er það í meira lagi undarlegt, því að í öðrum löndum eru það einmitt dýralæknarnir, sem reyna að vernda löndin fyrir veikinni. Hjer reynir stjettarbróðir þeirra að halda verndarhendi sinni yfir möguleikunum fyrir því, að veikin berist til landsins.

Að öllu athuguðu held jeg, að það sje tvímælalaust rjett af deildinni að samþykkja frv. óbreytt, þótt það sje e. t. v. ófullkomið að einhverju leyti; þá þarf það ekki að gilda nema part úr ári, ef næsta Alþingi sýndist rjett að breyta því. Óþægindi þau, sem t. d. verslunarstjettin hefir af sumum ákvæðum frv., eru ekki svo mikil, að ekki sje margfalt meira virði að vera laus við þennan vágest.