18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Jónsson:

Það eru gleðilegar upplýsingar, sem hv. frsm. gefur, að nefndin hefir haldið marga fundi um málið. Samt sem áður verður því ekki mótmælt með rökum, að hún hefir afgreitt málið svo seint, að því hættir við að daga uppi, ef því verður nokkuð breytt í þessari hv. deild.

Það var auðheyrt á bæði hv. 2. þm. Rang. (EJ) og hv. 6. landsk. (JKr), að það er þeim mikill þyrnir í augum, að dýralæknir á lítið að hafa að segja um málið eftir frv. Það mun vera svo, að hv. Nd. hefir ekki verið ánægð með framkomu hans í þessu máli, og því hefir hún samþykt þessi ákvæði, en þá hefir hann borið sig upp við hv. meiri hl. landbn. í þessari deild, út af því, að þarna væri rýrð virðing hans. Nú vita það allir, að dýralæknir hefir verið mjög heilsutæpur um langan tíma. Og sjúkdómur hans er þess eðlis, að lítil batavon sýnist, a. m. k. fyrst í stað. Og þótt hann fengi einhvern bata, held jeg, að mjög varasamt væri að treysta á heilsu hans, þegar hann hefir orðið fyrir slíku áfalli. — Auk þess hefir almenningi fundist lítið gert af yfirvaldanna hálfu til að koma þessu máli í gott horf. Þó sýnist það ósennilegt, ef dýralæknir fylgist á annað borð nokkuð með erlendis, að hann viti ekki um hinar ítarlegu ráðstafanir, sem þar eru gerðar, til að hamla útbreiðslu veikinnar. — Veikin hefir verið landlæg í því landi, er við eigum mest viðskifti við, Danmörku, árum saman. Samt hefir þessi vörður heilsufars íslenskra dýra ekki gert neinar ráðstafanir til að hamla komu hennar hingað, fyr en á síðasta ári, eftir að hún var komin til Noregs. Í Svíþjóð eru gerðar yfirgripsmiklar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að veikin berist frá suðurhjeruðunum norður í landið. Norðmenn hafa gert svo mikið til að verjast veikinni, að Íslendingar, sem komu hjeðan að heiman, hafa jafnvel verið látnir í sóttkví, áður en þeir fengu að fara út á landið. Samt sem áður barst veikin inn í landið, og var þá eytt hundruðum þúsunda eða jafnvel miljónum króna til að skera niður búpening á hinum sýktu bæjum. Á þennan hátt hefir þeim nú sennilega tekist að stöðva útbreiðslu veikinnar, a. m. k. í bili.

Mjer er sagt það eftir hæstv. atvrh. (MG), að hann hafi látið sjer þau orð um munn fara, að ekki gerði mikið til, þótt veikin bærist til Vestmannaeyja. Mjer þykir þetta ótrúlegt og stórhneykslanlegt, ef satt væri. Langar mig því til að heyra hæstv. ráðh. segja um það sjálfan, hvort þetta er rjett haft eftir. — Hitt veit jeg að er satt, að leyft var að flytja til Vestmannaeyja nokkuð af heyi, sem komið var í skip áður en innflutningsbannið var á lagt, en eftir að veikin kom upp í Noregi. E. t. v. stafar þetta Vestmannaeyjatal þaðan.

Það er nokkurnveginn skiljanlegt um hjerðslækninn í Skagafirði, þótt það sje óafsakanlegt um alþingismann, að hann hafi ekki opin augu fyrir þeirri hættu, er íslenskum landbúnaði getur stafað af gin- og klaufaveiki. Hitt er miklu verra, þegar fulltrúar landbúnaðarhjeraða, eins og hv. 2. þm. Rang. (EJ), sem sjálfur er auk þess bóndi, vilja taka málið vetlingatökum. Ef veikin bærist hingað, og sýkti frá sjer, eins og í Noregi, þá er afar ósennilegt, að okkur tækist að stöðva hana. Í Noregi var alt fje skorið niður, þar sem nokkur grunur var um veikina. Gerðar voru stórkostlegar girðingar um bæina, sem taldir voru sýktir, gryfjur grafnar og skrokkarnir af öllum skepnum á bænum, sjúkum og heilbrigðum, dysjaðir þar ásamt öllu, sem þeim við kom. Bæði hermenn og dýralæknar sáu um, að hins strangasta aga og nákvæmni væri gætt í öllu. — Þegar litið er á það, að meira en helmingur Íslendinga hefir uppeldi sitt af landbúnaði, og þessi veiki er atvinnu sveitamanna miklu hættulegri en nokkur önnur fjárpest, sem hingað hefir borist — ekki sambærileg við fjárkláðann — þá skil jeg ekki þá fulltrúa bænda, sem ekki vilja beita ítrustu vörnum gegn henni. Í hv. Nd. var líka aðalandstaðan gegn frv. af hálfu nokkurra kaupstaðarfulltrúa, sem meira mátu hag verslunarstjettarinnar en alls landsins. Þeir, sem ekki komast í beina snertingu við hættuna, eru altaf ókærnari um hana. En þeir menn, sem þetta frv. kæmi til að skaða, eru svo fáir, að Alþingi má alls ekki taka meira tillit til þeirra en allra hinna þúsundanna. — Hitt skal jeg játa, að þótt bæði þing og stjórn geri alt, sem í þeirra valdi stendur, til að varna veikinni að berast hingað, getur samt farið svo, að varnirnar verði ónógar. En þá getur Alþingi ekki ásakað sig fyrir að hafa ekki verið á verði. — Hitt má alls ekki eiga sjer stað, að láta hagsmuni nokkurra innflytjenda og misskilið stolt dýralæknis ráða úrslitum málsins.

Tveir af hv. nefndarmönnum hjeldu því fram, að frv. leiddi til þess, að banna yrði innflutning á korni. Jeg veit nú ekki, hvort þetta á að takast alvarlega. Ef ekki er flutt korn til landsins, fæ jeg ekki sjeð, að líft sje í því. Enda er þetta útúrsnúningur. í frv. er ekkert í þá átt, að banna innflutning á korni. — Þá sagði hv. 6. landsk. þm., að ástæðulaust væri að banna egg, þar sem fuglar flyttu ekki veikina. Í almennum fræðibókum um þessi efni, sem leikmenn hafa aðgang að, er það þó sjerstaklega tekið fram, að hænsni sjeu hættuleg í þessu efni. Og í blaði, sem ekki má nefna í hv. deild, vegna þingskapanna, var því einu sinni haldið fram í ritstjórnargrein, að þær skepnur, er á þess máli heita fiðurfje eða fiðurdýr („fuglar“ á alþýðumáli) gætu borið veikina. Ennfremur var talað um vissa fuglategund, sem að vísu kemur ekki hingað, en Norðmenn eru hræddir um að kynni að flytja sjúkdóminn frá Danmörku. — Ekki held jeg því fram, að alt, sem í þessu blaði stendur, sjeu óhrekjanleg vísindi. En þar sem annan aðalritstjóra þessa blaðs má telja talsvert færan að bóklærdómi í því, sem að þessu lýtur, þá þykir mjer allólíklegt, að Íhaldsmenn í landbn. vilji tortryggja þennan vitnisburð um sýkingarmögueika. Sje það rjett, sem blaðið hefir haldið fram, er það rangt hjá hv. 6. landsk., að egg sjeu ekki sóttberar. Þá var því haldið fram af öðrum hv. þm., að hagalegt væri það, að fá ekki að bragða útlent smjör. Ekki get jeg hugsað mjer neina þjóðarógæfu af því stafa, og ekki heldur hvað eggin snertir. Við getum jafnvel vel verið án þess að flytja inn kartöflur. Er það vitanlega eitt mesta hneyksli í íslenskum atvinnurekstri, að ekki skuli vera ræktað sunnanlands og austanlands nóg af kartöflum fyrir alt landið.

Þá sagði hv. 6. landsk., að hann hefði frjett — af tilviljun, að því er virtist — um grein í þektu ensku blaði, er sannaði hans mál. Sýnir þetta átakanlega, á hve veikum grundvelli ályktanir þingmannsins eru bygðar. Ef t. d. Þórður á Kleppi hefði ekki látið þetta blað í hendur hv. 6. landsk., til þess að leiðbeina honum, þá gat vel verið, að alt hefði farið öðruvísi og hv. þm. hefði verið með því að gera þessar ráðstafanir, og þá hefði máske mátt verjast sjúkdóminum, sem nú á að slá slöku við. Þetta sýnir, hve óskaplega hirðuleysislega er að farið í þessu efni, þegar aðgerðirnar eiga að byggjast á þeirri tilviljun, að eitt eintak af útlendu blaði barst í hendur eins þingmannsins, þar sem sagður er fróðleikur nokkur, en þó vafasamur, um málið. Jeg skal reyna að sýna fram á þetta, eftir ræðu hv. þm. Hann heldur fram í fyrsta lagi, að ekki hafi fundist sóttkveikja að þessari veiki, og segja það reyndar fleiri. En jafnframt sagði hann eftir þessu enska blaði, sem hann byggir á, að það hafi fengist tvær áreiðanlegar niðurstöður. Önnur er sú, að gerlarnir hafi getað lifað á gleri í nokkrar vikur og í öðru tilfelli hafi þeir getað lifað á korni í 20 vikur. — Nú vildi jeg sem ólæknisfróður maður spyrja: Hvernig er hægt að rannsaka aldur sóttkveikjanna, fyrst þær eru ekki fundnar? (JKr: Þingmaðurinn veit ekki, hvað hann er að tala um.) Hv. þm. (JKr) átti að skýra frá því, hvernig það á sjer stað, að bakteríurnar eru ekki þektar, en þó sje hægt svo að segja að telja höfuðhár þeirra. Getur vel verið, að hv. þm. vilji jeta ofan í sig annan liðinn, og þá getur hitt náttúrlega staðist. En hvílík fásinna, að á slíkum rökum frá svo fáfróðum manni eins og hv. 6. landsk. eigi að byggja opnun landsins fyrir þeirri hættulegustu veiki viðkomandi íslenskum landbúnaði, sem hingað getur komið.