18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Guðmundur Ólafsson:

* Jeg fór að biðja um orðið, þegar jeg heyrði á hv. 6. landsk., að þeir væru nú farnir að tala um þetta mál, sem ekki hefðu vit á því; hjelt jeg, að jeg mætti þá eitthvað segja eins og hinir.

Jeg verð að segja, að þótt hv. landbn. hafi ekki beinlínis legið á þessu máli, þá hefir hún ekki tekið það alvarlega. Það er reyndar ekki von, að hún hafi afgreitt það á styttri tíma en þetta, en jeg held það hefði verið ráðlegra fyrir nefndina að fara meir eftir því, sem nefndin í Nd. komst að við rannsókn á þessu máli; hún hafði málið til meðferðar mestallan þingtímann. Mjer finst skína bæði út úr nál. og ræðum hv. nefndarmanna, sem allir hafa tekið til máls, að þeir taki þetta mál hreint ekki svo alvarlega. þeir álíta, eins og háttv. form. sagði, líklegt, að hættan komi ekki yfir. Sami hv. þm. sagði, að óþarflega langt væri farið í frv., og býst jeg við að meiri hl. líti svo á. Þeir eru ekki hræddir við veikina, sem þetta segja. En jeg er á því máli, að það sje minna saknæmt. Þótt gerð verði ef til vill óþarflega ströng lög um þetta efni, ef það yrði til þess, að við fengjum ekki þessa hættulegu veiki inn í landið. Jeg held það sje mjög óvarlegt að hafa þessa skoðun tveggja hv. nefndarmanna, að okkur sje óhætt að fara hægt í sakirnar, sökum lítilla líkinda fyrir því, að veikin berist hingað. Það ættu allir að geta sjeð — og er margbúið að taka fram — að þar með er eyðilagður annar aðalatvinnuvegur landsmanna. Reyndar er það altaf að heyrast betur og betur, að við sjeum ekki miklu ver farnir fyrir það, en jeg get ekki verið þeirrar skoðunar. Og jeg er því mjög hissa á þeirri niðurstöðu hv. meiri hl., að best væri að hafa sem allra vægust ákvæði í lögum um þetta efni, því að ef maður ber saman lögin frá 1926 og þetta frv., þá er það miklu harðara, en samkv. gildandi lögum er málið lagt að miklu leyti í hendur stjórnarinnar. Mjer þykir ólíklegt, að hæstv. stjórn sje gerður beinn greiði með þessu; því að jeg veit ekki, hvernig hún á eiginlega að fara að, hvort hún á ekki að gera neina frekari ráðstöfun, fyr en ef til vill að veikin væri komin til landsins, ef niðurstaðan verður sú, að þingið láti í ljós, að frv. þetta gangi of langt. Mín skoðun er sú um þetta frv., að nokkur vafi leiki á um það, hvort það gangi ekki of skamt. Það hefir verið miðað við það, að banna þær vörur fyrst og fremst, sem mest hætta stafar af, og því næst það, sem skaðminst má teljast fyrir landsmenn að vera án.

Viðvíkjandi ræðu hv. 6. landsk. og hans læknisvísindum, hygg jeg, að við hefðum haft gagn af því, þegar veikin er komin, en síður til þess að verjast veikinni. En þar sem hann talaði um, að sannað væri, að sóttkveikjur gætu lifað á gleri í nokkrar vikur, en á heyi lengur, eða 20 vikur, þá er auðsætt, að mun hættulegra er að leyfa innflutning á heyi en gleri.

Þá talaði sami hv. þm. líka um það, að mjög mikil hætta gæti stafað af kartöflum. Ef svo er, og ef það er álit nefndarinnar, hefði jeg ekki tekið til þess, þótt hún hefði bætt kartöflum við, ef hún vildi fara varlega. En öll meðferð nefndarinnar á málinu sýnir, að hún er hvergi smeyk og hefir viljað fara hægustu leið. Hv. form. landbn. (EJ) sagði líka, að ekki væri nóg tekið fram í frv., svo að það væri örugt. Hví bætir nefndin þá ekki við? Má vera, að menn segi í þessu máli eins og fleirum hjer í hv. deild, a. m. k. seinustu daga þingsins, að það sje ekki til neins að hreyfa neinum andmælum gegn því, sem meiri hl. vill vera láta. En jeg gat ekki stilt mig um að láta það koma fram — með því að jeg er fulltrúi fyrir landbúnaðarhjerað — að jeg tel þessa hv. nefnd hafa tekið á þessu máli með ljettúð. Hún vill fá deildina til að álíta, að hættan sje svo lítil. (JKr: Þetta er misskilningur.) Jeg er nú svo læs, að jeg get lesið þessar 8 línur, sem nál. er. Hún leggur til, að frv. verði ekki samþ., þótt ekki sje með berum orðum; það á að vísa því til stjórnarinnar, og alt á að standa við það sama, nema að hún geti gefið út bráðabirgðalög, ef henni þykir ástæða til. En jeg leyfi mjer að efast um röggsemi hennar í þessu efni, þar sem jeg óttast það, að hún telji okkur of örugga fyrir veikinni. (EJ: Það er engin hjálp í frv.) Það má náttúrlega kasta því fram, en jafnframt er sagt, að frv. gangi of langt um bann á innflutningi. (EJ: Of langt og of skamt!). Þar sem það er talið ganga of langt, hlýtur að vera mikil hjálp í því. En ef hv. nefndarmenn álíta, að á sumum sviðum gangi það ekki nógu langt, þá bar þeim að lagfæra það.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.