18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Kristjánsson:

Það var einn af þeim agnúum, sem jeg fann á þessu frv., að hvergi er talað um, að dýralæknir eigi nokkuð að vita um þetta mál. Þá sýnist mjer málinu spilað í óefni, ef þeir, sem hafa vit á því, eiga ekki að koma nærri því, en aðrir, sem ekkert vit hafa á þessu máli, eiga að fjalla um það. Skyldi það yfirleitt vera heppilegt, að láta þá fást við sjúkdóma, sem ekkert hafa til brunns að bera í þeim sökum, nema bara fáfræði? Hjer rís upp maður og talar um sjúkdóm, og ræða hans lýsir svo mikilli fáfræði og heimsku, að slíks eru ekki dæmi nokkursstaðar; jeg á við hv. 1. landsk. (JJ).

Það er um gin- og klaufaveikina að segja, að það er ekki í fyrsta skifti nú, sem hún kemur til Danmerkur. Veit jeg ekki betur en þetta sje í 4. skiftið, sem hún kemur til Danmerkur á 20 árum. Veikinni hefir verið útrýmt nokkurn veginn í bili, en hún komið aftur og aftur. Það er algerlega órjettmætt að brigsla mjer og öðrum um það, að okkur liggi í ljettu rúmi um þessa veiki; þetta er vitanlega sú vanalega pólitíska óráðvendni, sem hv. 1. landsk. þm. gerir sig sekan í, og er ekki orða vert. Jeg er viss um, að mjer er eins ant um eins og honum, að veiki þessi berist ekki til landsins, og hitt veit jeg líka, að honum er mest um það gefið að nota þetta sem pólitískt „númer“.

Hvað því viðvíkur, að banna innflutning á kartöflum, þá verður að líta á það, að það kemur alloft fyrir, a. m. k. um alt Norðurland, að uppskera bregst. Skortur á kartöflum getur auðveldlega orsakað skyrbjúg á fólki. Jeg hefi að minsta kosti ekki svo sjaldan orðið var við skyrbjúg í kauptúnunum, þegar kartöfluþurð hefir verið.

Jeg álít þessu máli best borgið í höndum samviskusamrar stjórnar og undir eftirliti samviskusams, mentaðs dýralæknis — miklu betur en þótt taldar sjeu af handa hófi einhverjar vörur, sem ekki mætti flytja inn. Sumar þessar vörur ættu alveg að vera hættulausar, svo sem burstavörur; slíkir hlutir eru búnir til úr suðrænum stráum og koma ekki á þessi veikindasvæði utanlands. En sumt af þessu getur verið rjettmætt að banna, svo sem hár í sjúkradýnur o. fl., og er ástæða að athuga það; en alt þetta getur stjórnin gert í samráði við dýralækni. Annars vita menn ekki með hverju veikin barst til Noregs; sumir segja með krákum, en aðrir segja að hún hafi borist með mönnum, sem hirða gripi. Dýralæknirinn hjer ljet í ljós við mig, að sjerstaklega mikil hætta gæti af stafað, ef gripahirðar erlendir kæmu og færu að hirða gripi hjer, og kæmu t. d. með ósótthreinsuð föt.

Þá var hv. 1. landsk. að tala um, að jeg hefði fengið þetta vit hjá geðveikralækninum. Er ekki nema eðlilegt, að honum detti sá maður fyrst í hug, en það var próf. Guðmundur Thoroddsen, sem henti mjer á það. Gilti einu, hvaðan gott kom.

En þegar hv. þm. fór að tala um bakteríurannsóknir, sló verulega út í fyrir honum. Það þýðir auðvitað ekkert að segja hv. 1. landsk. Það, að það er hægt að vita, að einhverjir sjúkdómar eru smitandi, löngu áður en maður getur hreinræktað bakteríurnar, sem þeim sjúkdóm valda. Menn hafa vitað í marga tugi ára, að krabbamein er smitandi, og menn hafa getað sýkt apa. En það er fyrst nú á þessu eða síðastliðnu ári, sem bakterían er fundin; það er fyrst, þegar hægt er að hreinrækta sýkla og rannsaka öll þeirra skilyrði, þegar þeir eru einangraðir og hægt að hreinrækta þá og sjá í smásjá. Það er hægt að sýkja eitt dýr, með því að sprauta vessa úr sjúku dýri í annað heilbrigt, jafnvel þótt sýkillinn, sem veikinni veldur, sje ekki fundinn. Þetta vissu menn fyrir löngu um bóluveikina, að hún var smitandi, og þótt gerillinn þektist ekki, var hægt að smita kýr og nota bóluvessa úr kúnni til þess að fyrirbyggja, að menn fengi bóluna. — Ræða hv. 1. landsk. er því bara bull út í loftið, og er ekki orða verð.

Jeg gat þess, að lífskraftur eða þol þessarar bakteríu hefði verið rannsakaður, vessi úr sjúkum dýrum rannsakaður á gleri í þeim vökva, sem þær lifa á. Það er hægt að vita, hve mikið ljós þær þola og uppþurkun, síðan taka það, sem er á glerinu, og reyna að sýkja með því. Sýkist dýrið, hafa bakteríurnar verið lifandi, en dauðar, ef það sýkist ekki. Þetta er auðskilið mál. En þeir, sem ekki hafa neina hugmynd um það og virðist varnað alls skilnings, þótt þeim sje leiðbeint, ættu ekki að vera að spreyta sig á að halda langar ræður um það. Jeg vil, að alt sje gert að yfirlögðu ráði, en ekki af blindum ótta, af þekkingu, en ekki vanþekkingarofsa. Þar sem óttinn ræður, er hættan mest. Ef þekkingin er lítil, geta menn hlaupið beint í voðann. Þekkingin er undirstaða framkvæmda, hjer sem annarsstaðar, og dýralæknar eru þeir, sem þekkinguna hafa á þessu sviði fyrst og fremst. Til þeirra ber að leita. Það er ekki endilega bundið við dýralækninn hjer í Reykjavík, heldur má og leita upplýsinga hjá dýralæknum utanlands, sem hafa miklu meira af þessari veiki að segja í sinni lækna-„praxis“. Að gera þetta mál að æsingamáli, leiðir ekki til neins góðs. Hyggilegast er að leiða það til lykta að vitrustu manna ráði, en það verða dýralæknarnir að teljast í þessu tilfelli.