18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í C-deild Alþingistíðinda. (2738)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð að telja till. hv. landbn. skynsamlega. Það er af því, að á frv. eru þeir gallar, að það tekur með vörur, sem engin hætta stafar af, en sleppir aftur á móti öðrum, sem teljast verða hættulegar. Þótt hv. flm. þykist hafa farið svo langt sem hugsanlegt var í upptalningu þess, er banna skyldi innflutning á, hefir þeim þó skotist yfir sumt. Því tel jeg ekki rjett að samþ. frv. Verði till. hinsvegar samþ., mun jeg leita mjer upplýsinga um það hjá „fag“-mönnum erlendis, hverjar vörutegundir sjeu hættulegar og hverjar ekki. Og jeg á von á, að þar verði talsvert annað upp á teningnum heldur en í frv. Byggi jeg það á aðgerðum Englendinga í þessum efnum. Þeir hafa ekki bannað hjá sjer innflutning á smjöri og eggjum t. d., og hafa þó útrýmt veikinni.

Hv. 1. landsk. sagði, að dýralæknirinn hjer hefði ekki gert neitt í þessu máli fyrri heldur en nú á síðasta ári. Það er ekki rjett. Dýralæknirinn hefir altaf spyrnt á móti innflutningi dýra hingað til lands, jafnvel svo, að sumum hefir þótt um of. Hefir eitt sinn orðið ágreiningur milli hans og Búnaðarfjelags Íslands um það, hvort flytja skyldi inn geitur eða ekki. Búnaðarfjelagið vildi leyfa það, en dýralæknirinn ekki. Og svo hefir oftar verið. Mun hann eiga manna mestan og bestan þátt í því, að ekki hafa borist hingað til landsins ýmsir alidýrasjúkdómar, sem geisað hafa erlendis. Það hefir hann hindrað með því að leggja á móti innflutningi lifandi dýra. En af þeim stafar hættan mest. Hjer í frv. er heimild til þess að gera undanþágu með innflutning á dýrum, en alls engin um innflutning á t. d. ostum. Jeg veit ekki betur en sumir ostar að minsta kosti sjeu soðnir. Og hvað er þá hættulegt við þá? (JKr: Þeir eru allir soðnir.) Þá þess heldur. Og víða veit jeg til þess, að mjólkin er „pasteuriseruð“, áður en búið er til úr henni smjör, þótt ekki sje það gert vegna hættu á útbreiðslu gin- og klaufaveiki, heldur vegna berklahættu.

Alt þetta þarf rannsóknar við. Hinsvegar er hægt, ef dýralæknir álítur þess þörf, að bæta við þær vörutegundir, sem taldar eru upp í lögum um varnir gegn alidýrasjúkdómum, sem sett voru á þingi 1926. Leiði rannsókn í ljós, að banna þurfi fleiri vörur, þá er það heimilt samkvæmt þeim núgildandi lögum. Jeg veit, að það er full ástæða til þess að verjast þessari veiki, og jeg vil ekki gera neitt til þess að standa á móti, að svo verði gert. En jeg heimta, að það sem gert er, sje gert eftir rannsókn og að ráði þeirra manna, sem fróðastir eru og færastir um að dæma í þessum sökum.

Jeg skil vel, að hætta geti stafað af kartöflum, sem teknar eru upp úr jörð, sem ef til vill hefir verið borinn í áburður undan sjúkum dýrum. Hví þá ekki að banna innflutning á kartöflum, fyrst banna á innflutning á öðrum vörum, t. d. þeim, sem jeg nefndi og soðnar eru, og því með öllu hættulausar. Þetta bendir á, að málið sje fjarri því að vera næglega rannsakað. Þetta frv. var athugað í nefnd í hv. Nd., og það er alkunnugt, að sú nefnd var komin að sömu niðurstöðu og hv. landbn. Ed., en hætti svo búin, af því að henni skildist á mjer, að dýralæknirinn hefði of mikið að segja í þessu máli.

Hv. 1. landsk. var að spyrja um norska heyið, sem fór til Vestmannaeyja. Það stóð svo á, að „Lyra“ var farin frá Noregi, áður en frjettist um bannið hjer. þegar „Lyra“ kom síðan til Vestmannaeyja, var leyft að flytja heyið þar í land, vegna þess, hve Vestmanneyingar voru illa stæðir með hey og höfðu kvartað um, og ókleift væri að nálgast innlent hey úr landi. Það hefi jeg aldrei sagt, að lítið gerði til, þótt gin- og klaufaveiki bærist til Vestmannaeyja. En hitt er satt, að það er tiltölulega langminstur skaði skeður, þótt veikin bærist þangað, af því að Vestmannaeyjar eru sá staður, sem langauðveldast er að einangra. En að það væri ekki ilt, eigi að síður, því hefi jeg aldrei haldið fram, hvorki fyr nje nú.

Að síðustu skal jeg enn taka það fram, að jeg tel rjettast að fylgja till. hv. landbn., og þá verður málið rannsakað svo sem föng eru á og till. gerðar að ráði sjerfróðustu manna, og loks stofnað til framkvæmda, hyggilega og tryggilega, að aflokinni rannsókn.