03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

5. mál, iðja og iðnaður

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg tel það ekki nema sjálfsagt, að nefndin muni fús á að taka til athugunar þetta, sem háttv. 5. landsk. (JBald) mintist á viðvíkjandi þeim iðngreinum, þar sem ekki er um sveinsbrjef að ræða eða sveinsstykki, eins og mjer skildist, að væri t. d. um setjara í prentsmiðju. Þetta mætti þá athuga nánar til 3. umr.

Hann drap lítilsháttar á gjaldið fyrir iðnbrjef og meistarabrjef og taldi það alt of hátt í sumum tilfellum eins og það er í frv., en jeg get ekki fallist á, að svo sje. Þessi gjöld eru í raun og veru alls ekki of há, ef þau eru borin saman við leyfisbrjefagjaldið fyrir að reka verslun.

Eins og jeg tók fram áðan, vildi þessi hv. deild í fyrra gefa ráðherra heimild til þess að lækka gjaldið, en háttv. Nd. fjelst ekki á það, er hún hafði til meðferðar frv. um verslunaratvinnu. (JBald: Það horfir öðruvísi við um iðnað). Jeg get ekki sjeð, að hjer sje um óskylt mál að ræða. Ýmiskonar iðnaður er oft rekinn í sambandi við verslun.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það, sem háttv. 5. landsk. hafði að segja. Hann virtist því fremur fylgjandi, að sett yrðu slík lög, sem frv. þetta fer fram á. Og eins og jeg sagði í upphafi, er það ekki nema sjálfsagt, að nefndin athugi í samráði við hann eða einhvern annan sjerfræðing atriði þau, er hann mintist á, og vona jeg, að það megi takast fyrir 3. umr.