18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett hjá hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að jeg taldi vanta rannsókn. En jeg vil minna á, hvað gerðist á þingi í fyrra. Þá voru sett lög, sem þinginu þótti nægileg varúðarráðstöfun gegn þessari veiki. Fyrir því fann stjórnin ekki ástæðu til þess að rannsaka málið neitt sjerstaklega frekar. Jeg skil ekki, hvernig þessi ótti er kominn yfir menn síðan í fyrra. Því að það er nú vitanlegt, að gin- og klaufaveiki er minni núna í nágrannalöndunum heldur en oft áður. Í Danmörku t. d. er hún lítið útbreidd nú, en hefir verið mikil undanfarin ár.

Þegar þingið í fyrra samþykti lögin, sem jeg gat um áðan og álitin voru þá nægileg, tók jeg það fram, að jeg skildi frv. svo, að lagt væri á herðar dýralækni vald til þess að gera allar frekari ráðstafanir, sem honum þætti þurfa í hvert sinn og mótmælti því enginn.

Jeg held það sje eins heppilegt að fara að ráði háttv. landbn., í stað þess að hlaupa til að gera einhverjar ráðstafanir, sem meira eða minna eru gerðar út í bláinn og margur leggur sig út af á koddann út frá, í þeirri góðu trú, að nú sje öllu óhætt, án þess að rannsakað sje til botns, hvort svo er ellegar ekki. Jeg vil láta rannsaka nákvæmlega og svo fljótt sem unt er, og ráðstafanir verða svo að byggjast á niðurstöðu þeirra rannsókna.