18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (2742)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jónas Kristjánsson:

Hafi vanþekking hv. 1. landsk. (JJ) í þessum efnum ekki verið kunn áður, þá er hún nú ber orðin af ummælum hans. Það, sem hann dirfðist nú að bera á borð af vísdómi sínum, er alt slík vitleysa, að ekki er orða vert að svara því. Mjer hefði þótt gaman, að nokkrir læknar hefðu verið komnir til þess að hlusta á þessa bakteríuspeki hans. En nú verður hann að hafa skemtun af henni einn.

Jeg held, að hæstv. atvrh. hafi svarað sem þarf hv. þm. A.-Húnv. (GÓ). Mjer finst vaka fyrir honum, að bara eitthvað sje gert, án tillits til þess, hvað að gagni verði, en það hlýtur að verða sem eðlilegt er, þar sem þekkinguna vantar, til einskis gagns. (JJ: Já, það er alveg rjett; hæstv. atvrh. hefir enga þekkingu á þessu máli.) — Jeg var að tala um hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) en ekki hæstv. atvrh. (MG).

Jeg verð að halda því fram, að nefndin hafi gert alt, sem hægt var að gera í þessu máli að svo stöddu. Það, sem andstæðingarnir halda fram, er á lítilli þekkingu bygt, og ráðstafanir, sem þeir stinga upp á, eru fálm út í loftið. Það þýðir ekkert að banna innflutning á vörum, sem taldar eru upp af handahófi, og skeyta svo ekkert um ýmislegt annað, sem meiri hætta stafar af. Þeir vilja víst vel, en vita ekki það rjetta í þessu máli. — Jeg geri lítið úr undirskrift manna, sem koma með skipum frá útlöndum, enda þótt þeir leggi við drengskap sinn, vegna þess að þeir vita í rauninni ekkert, hvað um er að ræða.