26.04.1927
Efri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal fúslega kannast við, að þetta frv. tók miklum umbótum við meðferð hv. nefndar, frá því sem var, er frv. var flutt hjer í deildinni. En mjer sýnist samt sem áður, að frv. fari að sumu leyti svo langt yfir nauðsyn, sem rjettlætt verði, í þá átt að leggja kvaðir á fasteignir í kaupstöðum, að það sje ekki rjett að afgreiða þetta mál án þess að það fái ítarlegri athugun. Það, sem jeg hefi sjerstaklega að athuga við sjálfan grundvöll frv., er það, að vikið er frá því, sem jeg hygg vera meginreglu undantekningarlaust í löggjöf um slík efni, að skilyrði fyrir lögnámi á fasteignum sje það, að almennings þörf krefji. En það er ekki sett sem skilyrði í frv., að nein almenningsþörf krefji. Því að það, að ein bæjarstjórn vill láta bæjarfjelagið eignast fasteign, þarf ekki að stafa af neinni almenningsþörf, en getur t. d. stafað af þeirri lífsskoðun, að ekki sje rjett, að einstaklingar eigi fasteignir yfirleitt. Hinsvegar gæti kanske verið einhver ástæða til fyllri ákvæða í lögum en nú er, til þess að tryggja bæjarstjórnum að geta eignast t. d. hafnarmannvirki. En jeg held samt, að í hafnarlögum sjeu ákvæði, sem eru hugsuð til þess að tryggja rjett kaupstaða að þessu leyti. En þegar farið er að teygja þetta út yfir allar fasteignir, án nokkurs greinarmunar, og bygt eingöngu á áliti bæjarstjórnar í hvert skifti, án þess að nokkrar ástæður liggi til eða almanna þörf krefji, þá er það mikils til of víðtæk kvöð. Líka er það athugavert við frv., að hætt er við, að rjettaróvissa stafi af ákvæðum þess, ekki fyrir dómstólunum, heldur fyrir eigendum eignanna, ef þær ganga kaupum og sölum. Svo er kveðið á í frv., að kvaðir allar skuli birtar í B-deild Stjórnartíðindanna. En það er nú svo, að menn eru ekki stöðugt að lesa B-deild Stjórnartíðindanna, og hætt er við því, að stundum kynni að gleymast að fletta upp í þeim við slík tækifæri, og gæti því komið fyrir, að eigandi selji fasteign öðrum manni, án þess að bjóða bæjarstjórn forkaupsrjett. En þá má, eftir því sem frv. segir til, búast við lögsókn til kaupriftingar í alt að 6 mánuði. Sjá allir heilsýnir menn, hvílíku tjóni það getur valdið mönnum, sem hafa brotið bæjarstjórnarsamþykt um þetta í góðri trú. Það er sú minsta og sjálfsagðasta krafa, sem hægt er að gera, að bæjarstjórn láti þinglesa kvöðunum á fasteignum og færa inn í veðmálabók. Kaupandi útvegar sjer venjulega veðbókarvottorð, og gæti þá fengið vitneskju um kvaðir, ef einhverjar eru. En það er ekki áskilið í frv.

Jeg ætla því að leyfa mjer, vegna þessara athugasemda, sem jeg hefi gert við frv. og mætti hafa bæði fleiri og ítarlegri, að leggja til, að málinu verði vísað frá að svo stöddu, til frekari athugunar. (JBald: Vísað frá?). Já, eða til stjórnarinnar. Jeg get gengið inn á það alveg eins.