26.04.1927
Efri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Jón Baldvinsson:

Það hefir verið nokkuð algengt fram að þessu, að hræða börn til þess að vera nú „góð börn“, og það er einkum eitt, sem fullorðna fólkið hefir notað til að hræða börnin með, og það er hún Grýla gamla. Nú er það fasteignafjelagið hjer í bænum, sem hefir tekið sig til og kveðið grýluvísu yfir hæstv. forsrh. (JÞ), og hún hefir líklega verið þessi:

„Grýla reið fyrir ofan garð;

hafði hala fimtán,

og á hverjum hala

hundrað belgi,

og í hverjum belg

börn tuttugu;

þar vantar á eitt

— og þar skal fara í barnið leitt!“

Og svo á að taka hæstv. forsrh. (JÞ) og fá hann Grýlu í hendur, til þess að fylla töluna, ef hann verður ekki góða barnið og reynir að sjá fyrir þessu frv., sem hjer er á ferðinni. Það er bókstaflega hlægilegt fyrir fullorðna menn, að láta fara þannig með sig eins og krakka, að jeg skammast mín fyrir að segja frá því.

En röksemdir þær, sem hæstv. forsrh. er að tæpa á, eru þessar: Það gerir ekkert til í sveitum, af því að þar eru engir sósíalistar nje kommúnistar. En í kaupstöðum vaða uppi þeir menn, sem — með fágaðra orðalagi — hafa þá lífsskoðun, er gæti leitt til þess, að bæjarstjórnir yrðu fingralangar á fasteignir manna. Hæstv. forsrh. veit, ef hann hefir lesið aths. við frv., að ekki er ætlast til að gengið verði svo langt sem hann vill vera láta. Í greinargerð fyrir frv. segir svo: „Íbúðarhús með hæfilegum lóðum ætti ekki að jafnaði að taka í samþyktir um forkaupsrjett; það yrði full-umstangsmikið. Hinsvegar getur lega einstaks íbúðarhúss verið þannig, að mikilsvert sje fyrir bæjar- eða hreppsfjelagið að eignast það, og því er ekki í frv. útilokað, að taka megi íbúðarhús upp í samþyktir.“

Þetta hefir gert það að verkum, að frv. hefir orðið víðtækara en það, að ná aðeins til hafnarmannvirkja. Það getur staðið svo á, að einstök íbúðarhús liggi þannig, að nauðsynlegt sje að hafa umráð yfir þeim, og hafnarmannvirki hafi að öðrum kosti ekkert gildi fyrir kaupstaðinn. Hæstv. forsrh. skýrði rangt frá um það, að ekki væri hægt að samþykkja þetta frv. nema brjóta í bág við meginreglu í löggjöf. Það er aðeins ætlunin með þessu frv. að tryggja kaupstöðum og kauptúnum að sitja fyrir kaupum á þessum eignum. Jeg skil ekki, hvaða rjettaróvissu fyrir fasteignaeigendur gæti af þessu leitt. Það er engin hætta á, að þeir fylgdust ekki með í samþyktum bæjarstjórnanna um þessi efni. Það kemur ekki til mála, að nokkur fasteignaeigandi fylgist svo illa með því, sem snertir hans hag, að hann verði í nokkurri óvissu um þetta. Hverjum dettur í hug, að slíkar samþyktir fari fram hjá hreppstjórnum í smákauptúnum eins og Norðfirði, Eskifirði, Akranesi o. s. frv., án þess að fasteignaeigendur vissu af því? Í Reykjavík mundi því ekki heldur til að dreifa. Hjer mundu fasteignaeigendur áreiðanlega fylgjast með í því, hvenær slíkur forkaupsrjettur væri ákveðinn um eign þeirra, eða ekki. Annars mundi þetta að litlu leyti snerta Reykjavík. Þetta er einkum fyrir þá bæi, sem ekki eiga hafnarmannvirki sín, en þurfa að eignast þau. Má minna á Oddeyrarsöluna í þessu sambandi.

Jeg get ekki sjeð, að nein hætta stafi af þessu frv., en hinsvegar er í því fólgin talsverð trygging fyrir bæjarfjelögin. Allshn. hefir fallist á frv. með smábreytingum, og það hefir verið samþ. við 2. umr. með 12 eða 13 atkv. Jeg held, að mönnum hafi skilist vel, hvað í því felst, og sjái, að það er fullkomlega sambærilegt við forkaupsrjett hreppa á jörðum. Jeg skil ekki, að það fái nokkurt fylgi, að vísa frv. frá, eins og hæstv. forsrh. vill, eða til stjórnarinnar, eins og hv. 1. þm. G.-K. vill.