06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

Mál þetta er komið frá Ed. og hefir fengið þar ítarlega meðferð hjá allshn., sem hefir gert nokkrar breytingar á frv. Það er fram komið til þess að setja hliðstæð ákvæði um forkaupsrjett ýmsra eigna í kaupstöðum við það, sem gildir um eignir í sveitum. Þessi ákvæði ná til kaupstaða, sem eru hreppsfjelag út af fyrir sig. Heimildin er nokkuð víðtæk eftir frv., en fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að hún nái til hafnarmannvirkja. Nefndin hefir klofnað í þessu máli, og mun minni hl. gera grein fyrir sinni afstöðu. Meiri hl. nefndarinnar felst á ástæður þær, sem færðar eru fyrir frv., og leggur til, að það sje samþ. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., en vænti þess, að hv. deild sjái, að hjer er um að ræða mikið nauðsynjamál.