06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Jeg lít svo á, að aðalefni frv. þessa felist í 1. gr. þess, þar sem bæja- og sveitarstjórnum er heimilaður forkaupsrjettur að hafnarmannvirkjum í viðkomandi sveitar- eða bæjarfjelagi, lóðum þeim, er að sjó liggja, og á öðrum lóðum innan lögsagnarumdæmisins, svo og öðrum fasteignum. Það er því alveg á valdi sveitarstjórnanna, hve víðtækt þær nota þessa heimild. Jeg vil því vara háttv. deildarmenn við, að samþ. frv. þetta með það fyrir augum, að ráðherra neiti að staðfesta reglugerðina. — Ráðherra getur vissulega ekki neitað að staðfesta reglugerð, sem bygð er á lögum. Og þar sem ekkert er því til fyrirstöðu, að bæjar- eða sveitarstjórn taki allar fasteignir innan umdæmis síns, og setji þær undir forkaupsrjettarákvæðin, þá sje jeg ekki, að ráðherra hafi þar nokkuð að hafna.

Jeg veit ekki til þess, að það hafi nokkru sinni staðið á Alþingi að veita eignarnámsheimild samkv. stjórnarskránni, þegar um almenningsheill hefir verið að ræða. Það er vitaskuld ekki á mínu valdi að segja fyrir um það, hvenær almenningsheill er fyrir hendi. Alþingi gerir út um þetta í hvert skifti. Enda fer best á því, að svo sje. Þess vegna er engin ástæða til þess að fara að samþ. svo róttæka heimild sem þessa, enda getur það verið hættulegt, og vona jeg, að hv. þdm. sjái það, að engin hæfa er að samþ. frv.