31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil aðeins láta í ljós mjög mikla undrun yfir því, hvernig hv. 4. þm. Reykv. tekur í þetta mál. Þessi hv. þm. hefir hvað eftir annað á þessu þingi verið að láta orð falla um það, að af annara manna hálfu væri verið að hindra menn frá að neyta kosningarrjettar síns, eins og hann væri sá mikli vörður fólksins í þessu efni. Svo kemur fram frv., sem á að tryggja þetta miklu betur en áður, opnar mönnum leiðir til þess á ýmsan hátt að geta sem best notið síns rjettar; þá sprettur þessi hv. þm. upp og mótmælir harðlega. Þetta er ekki sprottið af umhyggju fyrir því, að alþýða fái að njóta kosningarrjettar síns. Það er vitanlegt, að ólíkar eru starfsaðferðir sósíalista og kommúnista, og í þessu máli notar hv. þm. (HjV) bardagaaðferð kommúnista. Hann aðhyllist ekki stefnu hinna hægfara sósíalista, og spyrnir því á móti umbótum, með því að vera á móti þeirri rjettarbót, sem felst í þessu frv.