30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í minni fyrstu ræðu við fyrri hluta þessarar umr., talaði jeg um almenn atriði þessa máls, en nú vil jeg til viðbótar því, sem jeg þá sagði, ræða einstök atriði frv., eftir að hv. frsm. minni hl. hefir talað.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri eitt höfuðatriði í skólamálum landsins að koma unglingafræðslunni í gott horf. Í þessu efni er meiri og minni hl. alveg sammála, og jeg undrast það yfirleitt, að nefndin skuli ekki hafa getað komið fram í einu lagi. Jeg gat þess skýrt og skorinort, að hver sá, sem greiddi atkv. um þetta mál, yrði að gera það með það fyrir augum, að láta á síðan sjerhvern landshluta njóta sama rjettar. Það er alt landið, sem hjer er um að ræða. Þegar nú meiri og og minni hl. eru sammála um, að unglingaskólarnir eigi að njóta sama rjettar, hvar sem þeir eru á landinu, sýnist mjer alveg ástæðulaust að óttast, að nokkurt misrjetti eigi sjer stað í þessum efnum. Á hverju einasta þingi, síðan jeg kom fyrst á þing, hafa verið gerðar einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi unglingaskólunum, og í öll skiftin hafa einstök hjeruð verið tekin út úr, en þó látin njóta þess rjettar, sem hefð er komin á. Jeg sje ekki, að hjer sje verið að setja neitt sjerstakar reglur fyrir Rvík, fremur en fyrir aðra unglingaskóla, svo sem t.d. fyrir Laugaskólann, Suðurlandsskólann, Núpsskólann eða aðra. Yfirleitt er hjer engin stórfeld nýjung á ferðinni. Hjer er bæði hvað snertir stofnkostnað og reksturskostnað fylgt sömu reglu í Rvík og um aðra skóla. Hv. frsm. minni hl. vildi bera mjer það á brýn, að jeg teldi það óvild af hans hendi í garð Rvíkur, að vera á móti þessu máli. En hv. minni hl. telur ástæður sínar gegn þessu frv. vera tortrygni um það, að einstakir landshlutar verði ekki látnir njóta sama rjettar á eftir. Jeg sje ekki betur en að slík tortrygni sje alveg óþörf. Jeg veit ekki annað en að allir þeir, sem telja sig vera andstæðinga þessa máls, beri unglingafræðsluna fyrir brjósti. Hv. frsm. minni hl. lagði áherslu á það, að hjer væri farið inn á nýja braut, að unglingaskólarnir skyldu nú gerðir að ríkisskólum, en væru nú flestir einkaskólar. Um þetta atriði er jeg ekki sammála hv. frsm. minni hl. Það er ekki hægt að segja, að unglingaskólar Rvíkur sjeu gerðir að ríkisskólum með þessu frv. í frv. eru ýms ákvæði um samstarf ríkis og hjeraða um unglingaskólana. En unglingaskólunum er ætlað mikið sjálfstæði. Jeg geri ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að í okkar litla landi geti engir unglingaskólar starfað til langframa sem einkaskólar eingöngu. Hvað áhrif ríkisins snertir á stjórn þessara skóla, þá yrði sterkasta valdið ekki ríkið, heldur skólanefnd og hennar aðalráðgjafi, skólastjórinn við hvern skóla.

Jeg hygg, að hv. frsm. minni hl. hafi gert helst til mikið úr því, að þessi skóli væri öðruvísi fram borinn en aðrir unglingaskólar hjer. Þeir hefðu vaxið sjálfkrafa, en hjer væri ríkisvaldið að knýja þá fram. En þó að einstakir menn hafi tekið sjer fyrir hendur að annast unglingafræðslu og skólar þeirra hafi vaxið, þá veit jeg ekki dæmi til þess, að unglingafræðslunni í nokkrum hinna stærri bæja, hvorki hjer nje annarstaðar á Norðurlöndum, hafi verið fullnægt á þann hátt. Hjer í bænum hefir starfað í mörg herrans ár lítill unglingaskóli, sem ekkert hefir vaxið. Jeg held, að hv. frsm. minni hl. þurfi ekki annað en að líta til Danmerkur og sjá, hvernig þar er háttað í þessu efni. Þar eiga einstakir menn mestan þátt í því, að koma upp unglingaskólum eða lýðskólum til sveitanna, en í bæjunum er það ríkið og bæjarfjelögin, sem hefjast handa. Svona er þetta alstaðar. Og það er ekki hægt að ætlast til þess, að þetta verði öðruvísi hjer á okkar landi. Þetta mál er komið hingað til þingsins frá rjettum aðila, bæjarstjórn Reykjavíkur. Það er Reykjavík, sem hjer leitar á. Að vísu eru það einstakir menn, svo sem Jón Ófeigsson, sem tekið hafa málið í sínar hendur og undirbúið það fyrir bæjarstjórn og bæjarnefndir. En það ætti ekki að spilla, þó að einstakir menn leitist við að bæta úr ríkri þörf, sem öllum kemur saman um að bæta þurfi úr að fullu mjög bráðlega.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að hjer væri um stórt fyrirtæki að ræða, og í nál. segir, að hjer sje stofnað til hinna stórfeldustu framkvæmda, sem enn hafi átt sjer stað í skólamálum landsins. Þetta er ekki rjett. Hjer er alls ekki um að ræða stórfeldustu framkvæmdir í skólamálum landsins. Stórfeldustu framkvæmdir, sem hjer hafa verið gerðar í þessa átt, eru barnafræðslulögin og ákvarðanir þinganna 1907 og 1919 um það efni. Þegar talað er um, að eitthvað sje stórfelt fyrir ríkið, ber fyrst og fremst að líta á, hve mikinn kostnað ríkið hefir af því. Jeg vil líta svo á, að ýms önnur skólafyrirtæki sjeu hlutfallslega alveg eins stórfeld fyrir ríkið. Má bæði nefna Eiðaskólann og Suðurlandsskólann, sem ekki mun verða hikað við að setja á stofn, þegar ástæður leyfa. Það skiftir ekki miklu, hvort þetta fyrirtæki er minna eða stærra, heldur hvort það er í rjettu hlutfalli við önnur fyrirtæki af sama tæi og þann mannfjölda, sem þau eiga að starfa fyrir. Þessi unglingaskóli verður auðvitað stór í samanburði við aðra slíka skóla, af því að Reykjavík er svo stór, Þetta leiðir aðeins af stærð bæjarins, án þess að skólaþörfinni sje á nokkurn hátt fullnægt betur hjer en annarsstaðar.

Í sambandi við stærð fyrirtækisins liggur nærri að tala um stofnkostnað og rekstrarkostnað. Hv. minni hl. gerir í sínu nál. tilraun til að láta stofnkostnaðinn vaxa mjög í augum. Alt sje óvíst um kostnaðarhliðina, upplýsingar ófullnægjandi o. s. frv. Jeg skal fyrst taka það fram, að stofnkostnaðurinn og nákvæmur útreikningur á honum er ekkert aðalatriði. Það kemur fyrst til greina, þegar leitað er fjárveitingar til fyrirtækisins. Þá kemur til greina, hvort hægt er að leggja fjeð fram. Það er viðfangsefni, sem ekki liggur fyrir nú. Jeg vil segja, að það sje enganveginn nauðsynlegt að leggja fram sjerlega nákvæmar áætlanir um stofnkostnað um leið og svona mál er borið fram. Unglingaskólar hafa áður fengið alt að 2/5 stofnkostnaðar úr ríkissjóði, án þess fyrir lægi fullkomin áætlun um stofnkostnaðinn. Þeirri reglu hefir verið fylgt, að láta þá fá 2/5 þess fjár, sem sannað varð, að farið hefði í kostnað við bygginguna. Ef við erum sammála um þörf skólans og um það, að hlutfallslegt framlag ríkis og hjeraðs skuli vera eins og 2:3, þá þurfa engar deilur að rísa um það, hvort kostnaðaráætlunin sje rjett. Þrátt fyrir þetta hika jeg ekki við að byggja að mestu leyti á útreikningum húsameistara, sem eru bygðir á rúmmáli, en nær því rjetta yrði varla komist, þó að gerðar væru nákvæmar teikningar og ritaðar upp efnisskrár. Jeg skal benda á, að talan 750 þús. er ekki kostnaðaráætlun frá húsameistara, heldur aðeins lausleg tilgáta, sem um þetta var gerð. Hjer er því ekki verið að breiða yfir neitt. Það er ekki rjettur reikningur hjá hv. minni hl., að ef allur kostnaður yrði 750 þús. kr., þá yrði ríkissjóðshlutinn 250 þús. ¾ af þeirri upphæð getur ekki orðið minna en 300 þús. Hv. minni hl. gefur því í skyn meiri hækkun en rjett er, frá því sem upphaflega var talað um.

Hugleiðingar minni hl. um, að byggingarkostnaðurinn kunni að hlaupa upp í miljón króna, er bygður í miklu lausara lofti en rúmmálsreikningur húsameistara. Jeg tek áætlun hans fram yfir ágiskun minni hl. En þó að kostnaðurinn færi eitthvað fram úr því, sem upphaflega var giskað á, sje jeg enga ástæðu til að ætla, að sú viðbót lenti öll á ríkissjóði. Hjer er um meginreglu að ræða, sem ekki verður vikið frá, nema öll hjeruð landsins, sem styrk hafa fengið í sama skyni, fái uppbót á þann styrk, sem þau þegar eru búin að fá. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þessu hlutfalli verði breytt. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir líka tekið afstöðu til málsins, án þess að líta á fjárhagshliðina, nema að því er snertir hlutfallið milli framlags ríkis og bæjar, enda hefir hvorki hún nje borgarstjóri haft nein afskifti af málinu, nje komið fram með viðvaranir eða leiðrjettingar eftir að nál. kom út. Hvað stofnkostnaðinn snertir, er heldur ekkert að óttast. Hjer er um hlutfall að ræða, sem komin er hefð á, og ef því verður breytt, sem ólíklegt er, hlýtur sú breyting að ná til allra hjeraða landsins.

Þá virtist hv. minni hl. vilja halda því fram, að með þessum lögum væri Reykjavíkurbæ trygður meiri rjettur en öðrum landshlutum. En jafnvel þó miðað sje við núverandi ástand, er ekki svo. Nú geta hjeraðsskólar annarsstaðar á landinu fengið alt að ¾ alls rekstrarkostnaðar. Hjer er því um að ræða lækkun á því tillagi, sem útlit gat verið fyrir, að greitt yrði til unglingaskóla. Hjer er ríkinu ætlað að greiða ¾ kennarakostnaðar. Alt annað á skólasjóðurinn að borga. Ef þetta verður samþykt, verður vafalaust sama regla látin gilda um önnur hjeruð landsins, og tel jeg það holt, þó um lægri upphæðir sje að ræða, því að skólasjóðurinn gefur þessari stofnun svo mikið sjálfstæði, að í raun og veru má segja, að hún sje öllu fremur sjálfseign undir skólastjórn heldur en ríkiseign. Með þessu fyrirkomulagi mundi aðstaða ríkis og hjeraðs áþekk og nú er við barnaskólana. Ríkisvaldið mundi ekki beita áhrifum sínum, nema bersýnilega væri verið að stefna inn á ranga braut.

Jeg skal rjett drepa á það, að skýrsla mín til fjvn., sem frsm. minni hl. mintist á, um þann styrk, sem unglingaskólar þyrftu á næsta ári, var ekki miðuð við þetta frv., heldur við aths. í fjárlögunum um ¾ rekstrarkostnaðar. Þess vegna var þar lagt til heldur hærra tillag en ef jeg hefði farið eftir frv. Mjer virðist fjvn. hafa tekið þannig í það mál, að þessir helstu sveitaskólar muni njóta um það bil sama styrks og ef þetta frv. hefði gilt. Það er sjálfsagt að ræða um þessar tvær fjárhagshliðar, stofnkostnað og rekstrarkostnað og hlutföllin milli framlags ríkis og hjeraðs. En að ræða um þetta eins og nú ætti að fara að veita fje til þessa fyrirtækis, er ekki rjett. Það má bíða, þar til slík tillaga kemur fram í fjárlögum. Það má líkja þessu frv. við lög um vegi og brýr, þar sem gerðar eru ákvarðanir viðvíkjandi framtíðinni, sett lög um það, sem æskilegt þykir að framkvæmt verði, þegar fje er fyrir hendi. Fyrsta skilyrðið fyrir framkvæmd verksins er, að bæjarstjórnin leggi fram sinn hluta og sæki um tillag ríkissjóðs á móti; en það verður naumast gert, nema í svo góðu árferði, að ríkissjóði verði kleift að inna af hendi sínar skyldur. En þar sem hjer er um að ræða alla unglingafræðslu í Reykjavík, og auk þess iðnskóla, vjelsjóraskóla og verslunarskóla, ofbýður mjer ekki, þó að stofnkostnaður af hálfu ríkissjóðs verði 350 þúsund krónur eða um það bil. Jeg undrast miklu fremur, að þetta skuli ekki vera dýrara. Hjer er því vafalaust borin fram góð og hagkvæm till. um skipun þessara mála.

Hv. minni hl. hefði því síður átt að berja við örðugum fjárhag, þar sem hann fullyrðir, að ekki sjeu líkur til að þetta komist í framkvæmd í bráð. Nefndin öll hefir talað við borgarstjóra og spurt, hvenær hann hugsi sjer, að bærinn geti hafist handa í þessu efni. Hann gaf það svar, að barnaskólinn yrði að ganga fyrir, en þetta fyrirtæki mundi verða hið næsta, sem bærinn tæki sjer fyrir hendur, eftir að barnaskólanum nýja er lokið. Eftir því sem borgarstjóri heldur, er von um, að þessi skóli geti komist upp að einhverju eða öllu leyti árið 1929, svo að það er ekki sjerlega langt þangað til. En þetta hefir borgarstjóri látið um mælt með því fororði, að árferði færi batnandi og yrði sæmilega gott næstu 2 ár, svo að enginn þarf að óttast, að framlag til byggingarinnar verði heimtað úr ríkissjóði, ef kreppa og illæri heldur áfram.

Jeg þykist nú hafa fært nokkur rök gegn mótbárum hv. minni hl. Hjer er ekki um það að ræða, að ríkið taki þessa skóla í sínar hendur, heldur eru settar hjer fastar reglur um afstöðu ríkis og hjeraðs, bæði að því er snertir fjárframlög og uppeldishliðina.

Þá mintist hv. þm. (JG) á iðnskólann, vjelstjóraskólann og verslunarskólann og þeirra afstöðu til þessa máls. Flest af því gefur ekki mikið tilefni til andsvara. En hv. þm. sagði, að brtt. mín um samvinnuskólann bæri vott um tortrygni mína um að mál þetta væri hafið af fjandskap til samvinnuskólans. Það má vera, að tillaga mín beri vott um slíka tortrygni. En jeg hugsa, að hún sje ríkari hjá öðrum en mjer, og með tillögu minni vil jeg slá þann grun niður. Jeg hefði jafnvel fúslega viljað fallast á að taka verslunarskólann alveg út úr, ef það hefði getað orðið til að bjarga frv. Þegar jeg geri ráð fyrir, að samvinnuskólinn haldi sínum styrk, þá er um leið ástæða til að gera ráð fyrir, að mín tillaga verði samþykt og geri ekki málinu neinn skaða. Hitt skal jeg játa, að ef tillagan verður feld, mundi það vekja tortrygni í þessu efni, nema því að eins, að önnur yfirlýsing kæmi fram, sem gæfi fullvissu um það, að samvinnuskólinn væri öruggur með sinn styrk. Þess vegna hefi jeg gert samþykt þessarar tillögu að skilyrði fyrir fylgi mínu við frv. Jeg ber það traust til hv. þm., að þeir láti það ekki ráða úrslitum, hvort þetta stendur í lögunum, eða hvort þeir ætlast til að það verði svo, án þess að það standi í lögum, því það er aukaatriði, hver hátturinn er hafður á því.

Jeg verð að segja, að þar sem hv. minni hl. er það mikið áhugamál að koma unglingafræðslunni í skipulegt horf, þar sem allir landshlutar sjeu jafn rjettháir, og hann jafnframt hefir lýst yfir því, að um engan fjandskap gegn neinum sjerstökum landshluta sje að ræða, þá get jeg ekki skilið, af hverju hann leggur til, að frv. verði felt.