30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jón Guðnason):

Jeg er ekki viss um, að atkvgr. geti farið fram strax. Jeg get ekki lofað því að vera mjög stuttorður, en þó skal jeg reyna að draga saman, það sem jeg þarf að segja, þó að jeg hafi mörgu að svara.

Hv. frsm. meiri hl. byrjaði mál sitt með því, að láta í ljós undrun sína yfir því, að þar sem við værum að mestu leyti sammála um höfuðatriðin í þessu máli, skyldum við ekki geta orðið samferða um það frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg get ekki skilið, af hverju hv. þm. furðar sig svo mjög á þessu. Það er ofur algengt, bæði í einu og öðru, að þó að menn sjeu sammála um höfuðatriðin í einhverju máli, þá greinir þá um leiðirnar í einstökum atriðum. Það er sitt hvað, að vera sammála um nauðsyn einhvers máls, eða hitt, hvaða skoðun menn hafa á hverri einstakri leið eða aðferð til þess að ná takmarkinu.

Því næst sagði hv. þm., að með þessu frv. væri ekki verið að taka neitt út úr fræðslukerfi landsins, því að atkvgr. fæli í sjer alt viðfangsefnið. Einnig gat hv. þm. um það, að þegar hefðu verið tekin út úr einstök hjeruð. Vitanlega hefir það orðið að vera svo. Í öllum stórmálum á sjer stað einhver smábyrjun, áður en málið í heild sinni er tekið fyrir og skipulagi komið á um það. Nú er það viðurkent, að til framkvæmda í þessu máli getur ekki komið í bráðina, en hinsvegar sje full þörf á að taka alt málið til meðferðar hið fyrsta, svo jeg sje ekki, að neinn árekstur þurfi að vera í þessu efni, heldur liggur beint við að taka þetta hvorttveggja fyrir í senn.

Hv. þm. hafði eftir borgarstjóra, að hægt væri að byrja ásamskólanum 1929, ef vel áraði þangað til. Það eru 2 ár þangað til, og á þeim tíma verða haldin 2 þing, og þar sem þetta mál, skipulag ungmennafræðslunnar, er ekki alveg óundirbúið, og að minsta kosti eins vel undirbúið og þetta samskólafrv., get jeg ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu að taka þetta tvent í einu lagi. En út af þessari skoðun sinni finnur háttv. þm. það, að ekki sje hugsanleg nein ástæða til þess að vera á móti frv. nema óvild til Reykjavíkur eða tortrygni um það, að önnur hjeruð verði látin sitja á hakanum. Jeg vil benda á, að þegar um annað eins stórmál er að ræða og þetta, þá verður, ef gæta á rjettlætis og sanngirni, að gera sjer fyllilega ljóst, hvort hægt sje að uppfylla hinar sömu kröfur víðsvegar um landið. Það má vel vera, að svo verði, en jeg hefði haldið, að heppilegast væri að athuga þessi mál í heild, áður en lengra væri haldið á þessari braut. Annars verð jeg í því sambandi að taka það fram, og jeg tel það stórt atriði, hversu gerólíkt fyrirkomulag þessa skóla á að verða, samanborið við fyrirkomulag annara ungmennaskóla, sem komið hafa upp hjer á landi. Ungmennaskóli sá, sem hjer ræðir um, skilst mjer eiga að verða ríkisskóli, aðeins eiga endurkröfu hjá Reykjavíkurbæ á litlum hluta kostnaðarins. En hinir ungmennaskólarnir, að undanteknum Eiðaskóla, verða altaf að eiga undir högg að sækja hjá ríkisvaldinu, um að fá rekstrarfje. Það er því ekki lítill munur, sem á því er, að þurfa altaf að gera kröfur til fjárins eða eiga það víst. Verði þessi ungmennaskóli stofnaður hjer í Rvík, þá er það ríkið, sem kröfurnar hefir til Reykjavíkurbæjar; er það alveg gagnstætt öðrum ungmennaskólum, sem hingað til hafa verið stofnaðir hjer á landi. Þeir eiga kröfurnar að sækja til ríkissjóðsins. Og það getur jafnvel verið hugsanlegt, að þó að eitt hjerað sæi sjer fært áð leggja fram sinn hluta til ungmennaskóla, þá sæi ríkið sjer ekki fært að leggja fram sinn hluta til skólans. Þetta gæti komið fyrir, ef þingið væri svo skipað, að því sýndist nauðsynlegt að láta annað ganga fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri orðin regla, að ungmennaskólarnir fengju fast tillag, er næmi alt að ¾ rekstrarkostnaðar, og tillögur sínar til fjárveitingar hefði hann bygt á því. Jeg er ekki vel kunnugur rekstri þessara skóla, en þó veit jeg það, að þeir eiga víða við þröngan kost að búa, og jeg býst við, að hv. frsm. meiri hl. hafi heyrt talað um, og forstöðumaður ungmennaskólans í kjördæmi hans hafi oft orðið að vinna fyrir lítið gjald.

Þá er annað, sem kemur til greina, fyrir utan þessi hlutföll á framlagi til skólanna. Það eru vaxtarmöguleikar skólanna. Í frv. þessu er gert ráð fyrir eðlilegum vexti ungmennaskóla Rvíkur, og af því leiðir, að ríkið verður að taka á sig meiri og meiri byrðar, eftir því sem skólinn stækkar. En fyrir þessu er ekki gert ráð gagnvart öðrum ungmennaskólum. Jeg vil því beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl. og sömuleiðis til hæstv. kenslumálaráðherra, hvað þeir hafi hugsað sjer í þessu efni gagnvart öðrum skólum. Því að mjer virðist, þegar jafnstórt mál sem þetta er á döfinni, þá hljóti kenslumálastjórnin að hafa gert sjer skýra grein fyrir, hvaða reglum hún ætli að fylgja í þessu efni.

Eins og kunnugt er, hefir nýlega verið stofnaður ungmennaskóli í Þingeyjarsýslu, og hann er nú þegar orðinn of lítill, samanborið við aðsóknina, og þannig er um flesta ungmennaskóla. Nú vil jeg fá svör hæstv. ráðh. (MG) um það, hvort hann vilji stuðla að því, að þessir skólar megi stækka eftir sömu reglum og gert er ráð fyrir með ungmennaskóla Rvíkur. Eða hvort hann ætli að vinna að því, að fjölga skólunum úti á landi, þegar svo er komið, að þeir skólar, sem fyrir eru, fullnægja ekki þörfinni.

Hv. frsm. meiri hl. fanst ekki rjett að tala mikið um stofnkostnað þessa skóla í sambandi við frv. þetta. Um fjárveitingu yrði ekki að ræða fyr en síðar, er fjárhagur ríkisins leyfði. En jeg vil nú spyrja, hvers vegna verið er að setja lög um þetta, ef ekki má tala um stofnkostnaðinn, og það því fremur, þegar ekki er gert ráð fyrir að líði nema tvö ár, þangað til skólinn verður stofnaður. Jeg fæ því ekki betur sjeð en að tímabært sje að tala um hann einmitt nú. Því þegar ríkissjóður lætur þessi hundruð þúsunda til samskólans, sem frv. gerir ráð fyrir, þá gæti jeg trúað því, að hann yrði að draga saman seglin með ýmsar aðrar framkvæmdir.

Þá mintist hv. frsm. meiri hl. á undirbúning þessa máls, og taldi hann góðan. Mjer dettur nú alls ekki í hug að gera lítið úr starfi manns þess, sem undirbjó þetta frv., en jeg verð að halda því fram, að undirbúningurinn undir þennan skóla sje síst betri en undirbúningur undir aðra skóla, sem stofnaðir hafa verið úti á landi. Hann talaði og um það, að hjer í Rvík hefði verið einkaskóli, sem lengi hefði staðið í stað. Þessu á jeg bágt með að trúa, því að hvers vegna skyldu einkaskólar ekki geta þrifist eins vel hjer eins og úti á landi. Hjer ætti þó síst að vera minni fræðsluþörf. Þvert á móti ættu einkaskólar að geta þrifist betur hjer en þar.

Þá man jeg ekki eftir fleiri atriðum í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem jeg þarf að svara nú í svipinn. Jeg skal því snúa mjer að ræðu hæstv. kenslumálaráðh. (MG). Hann lá okkur minni hl. nefndarinnar á hálsi fyrir það, að verða ekki meiri hl. samferða um þetta frv. Það, sem mjer kom undarlegast fyrir í ræðu hæstv. ráðh., var það, að hann taldi okkur minnihlutamenn ekki hafa tekið mikið tillit til fræðslumálastjórans, og spurði jafnframt, hvort það ætti að vera bending til sín um að honum hefði tekist illa valið í fræðslumálastjóraembættið. Jeg skil nú ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. kemur með þessa spurningu. Jeg veit ekki betur en að það sje alvanalegt hjer á Alþingi, að menn greini á í skoðunum, án þess að þeir beri allherjar vantraust hvor til annars. Og þó að okkur minni hl. greini hjer á við fræðslumálastjóra, þá get jeg huggað hæstv. ráðh. (MG) með því, að við erum vel ánægðir með hann í fræðslumálastjóraembættið. Og jeg veit, að hv. frsm. minni hl. tekur ekki þennan ágreining okkar svo, að við með því berum vantraust til hans sem fræðslumálastjóra.

Þá kem jeg að því, sem hæstv. ráðh. sagði um samvinnuskólann. Hann taldi það ekki rjett, sem sagt er í nál. minni hl., að ekki hefði verið leitað álits um þetta mál hjá þeim, sem að samvinnuskólanum standa, og sagði í því sambandi frá samtali sínu við fræðslumálastjórann. En hvað sem þessari afsökun hæstv. ráðh. líður, þá stendur alt, sem um þetta er sagt í nál., óhaggað. Þetta mál var aldrei borið undir þá, sem að samvinnuskólanum standa, en á því á fræðslumálastjóri enga sök, því að frv. var fullsamið, þegar hæstv. ráðh. átti tal við hann um þetta mál. Enda mun fræðslumálastjóri ekki hafa búist við, að þeir, sem að skóla þessum standa, hefðu viljað ganga inn í þetta samband, þegar búið var að semja frv., án þess að taka nokkurt tillit til þeirra sjergreina, sem í honum eru kendar. En frv. breiðir aftur á móti faðm sinn á móti verslunarskólanum og gerir ráð fyrir, að hann eflist og þróist. Mjer hefði óneitanlega fundist eðlilegra, að samvinnuskólanum hefði fyrst verið boðið að vera með. En að ætlast til, að hann gengi inn á eftir verslunarskólanum, þegar búið er að ganga fram hjá honum, finst mjer hreinasta fjarstæða.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að það, sem væri valdandi mótstöðu okkar minni hl. gegn frv. þessu, gæti ekki verið annað en tortrygni á því, að öðrum hjeruðum landsins yrði gerð sömu skil og Rvík í þessu efni. Þessi tilgáta hæstv. ráðh. er ekki fjarri sanni. Jeg tel slíka tortrygni ekki með öllu ástæðulausa, því að það er alkunna, að margar skólastofnanir út um land eiga mjög erfitt uppdráttar og eiga mjög erfitt með að fá sjálfsögðum kröfum sínum framgengt, og nægir, því til sönnunar, að benda á atkvgr. hjer á Alþingi í fyrra um lokastyrk til byggingar Laugaskólans.

Að endingu vil jeg lýsa því yfir, að jeg mun til bráðabirgða greiða atkv. með brtt. hv. frsm. meiri hl., enda þótt jeg sje ekki ánægður með hana. En að sjálfsögðu mun jeg koma með brtt. við 3. umr., ef þá frv. kemst svo langt.

Annars kom mjer það undarlega fyrir sjónir, að hæstv. atvrh. skyldi setja sig upp á móti brtt. frá hv. frsm. meiri hl., og það er ekki fjarri mjer að óttast það, að ef þessi brtt. verður feld, þá muni það geta farið á eftir, að samvinnuskólinn verði sviftur sínum styrk, og mjer væri ekki með öllu grunlaust um það, að það kynni að vera einhverjir á Alþingi, sem væri ósárt um, þó að hann misti þann styrk, er hann nú hefir. Rjettur skólans er á engan hátt trygður, ef þessi tillaga verður ekki samþykt. Það er vitanlegt, að eins og Alþingi hefir stundum verið skipað, þá hefir styrkurinn, sem samvinnuskólinn hefir fengið hjá hinu opinbera, hafst fram af þeirri ástæðu, að þeir, sem voru honum andvígir, urðu líka að fá fram styrk til hins skólans, verslunarskóla kaupmanna, sem þeir bera meira fyrir brjósti. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, sem jeg hefi heyrt einhverja halda fram, að þetta mál, samskólamálið, væri frá upphafi sett til höfuðs samvinnuskólanum. Mjer dettur ekki í hug að ætla það, að sá maður, sem samdi frv., hafi haft slíkt í huga. En hitt er mjer ekki grunlaust um, að ýmsum hv. þm. muni standa á sama um það, þótt rjettur samvinnuskólans sje ekki trygður í framtíðinni.